„Eini kosturinn í stöðunni er að vinna leikinn á sunnudaginn. Eftir aðra eins frammistöðu og á miðvikudaginn vill maður komast sem fyrst út á völlinn aftur og svara fyrir sig,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson þegar handbolti.is hitti hann fyrir á æfingu íslenska landsliðsins á föstudaginn. Á henni var m.a. lagt á ráðin fyrir síðari leikinn við Tékka í undankeppni EM sem fram fer í Laugardalshöll í dag og hefst klukkan 16.
„Við erum spenntir fyrir að mæta Tékkum aftur fyrir framan fulla Laugardalshöll,“ sagði Sigvaldi Björn sem lofar að frammistaðan slaka á miðvikudaginn verði ekki aftur í boði í dag. „Við erum það góðir í handbolta að sá leikur verður ekki endurtekinn.“
Frábært að finna fyrir stuðningnum
Sigvaldi Björn sagði að margir grunnþættir leiksins hafi brugðist á miðvikudaginn. Vel hafi verið farið yfir leikinn með þjálfurum.
„Við verðum að fara beint á markið, sækja maður á mann. Það var eins og við værum hræddir og sóttum þar af leiðandi alltaf út til hliðar. Við ætlum að svara fyrir okkur í Laugardalshöllinni. Það er frábært að spila þar aftur og finna þann mikla stuðning sem við höfum. Við ætlum að þakka fyrir okkur með góðum sigri,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Viðureign Íslands og Tékklands hefst í Laugardalshöll í dag klukkan 16. Uppselt er á leikinn sem verður sá fyrsti sem fram fer í Höllinni síðan í byrjun nóvember 2020. Útsending frá leiknum verður á vegum RÚV auk þess sem handbolti.is mun fylgjast með af mætti.