- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Villtur á leið á Ólympíuleika – „No sign, no information, no nothing“

Heimakonan Cathy Freeman var ein af stjörnum Ólympíuleikanna í Sydney fyrir 24 árum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þegar ég las frétt í vikunni um að rútubílstjóri danska kvennalandsliðsins í París hafi ekki ratað með liðið á æfingu í borginni rifjuðust upp fyrir mér tvö atvik þegar ég var svo heppinn að vera gerður út af þáverandi vinnuveitanda, Árvakri, til að fjalla um Ólympíuleikana í Sydney í Ástralíu í fyrir 24 árum. Með mér í för var Sverrir heitinn Vilhelmsson ljósmyndari Mogunblaðsins.

Í tilefni þess að 33. Sumarólympíuleikarnir verða settir í París síðdegis þótti mér ekki úr vegi að fletta upp í minningabankanum frá leikunum fyrir 24 árum með von um að einhver kunni að hafa þolinmæði og ánægju af. Um leið beðist afsökunar á ensku í fyrirsögn.

Enginn farangur

Eftir að hafa nánast farið í einum rykk frá Keflavík til Sydney með klukkustundar stoppi í Heathrow og liðlega tveggja tíma stans á flugvellinum í Singpore komum við félagarnir ferðalúnir á flugvöllinn í Sydney á sunnudagsmorgni. Við lendingu biðu okkar skilaboð þess efnis að farangur okkar hefði orðið eftir á Heathrow. Hann væri ekki væntanlegur eftir einn til tvo daga. Vorum við beðnir um heiti á hóteli svo hægt yrði að koma farangrinum til skila.

Konan vísaði okkur á rútu sem átti að fara með fjölmiðlamenn á þrjú hótel í Sydney sem væru á svipuðum slóðum. Eitt þeirra væri okkar hótel. Við hefðum svo sannarlega dottið í lukkupottinn

Hvert er förinni heitið?

Eftir nokkrar tafir vegna afgreiðslu á leyfi til landvistar og síðan sökum öryggisgæslu vegna komu Önnu prinsessu komumst við Sverrir loks undir bert loft. Þar beið okkar valdsmannsleg en vinaleg kona með skrifblokk í hendi. Hún spurði hvert för okkar væri heitið. Eftir leit í pappírum okkar fundum við loksins nafn hótels sem til stóð að búa á þrjá fyrstu dagana þangað til þorp fjölmiðla yrði opnað.  Konan vísaði okkur á rútu sem átti að fara með fjölmiðlamenn á þrjú hótel í Sydney sem væru á svipuðum slóðum. Eitt þeirra væri okkar hótel. Við hefðum svo sannarlega dottið í lukkupottinn.

Bílstjórinn sagðist ekki rata á fyrsta áfangastað. Konan með möppuna virtist álíka áttavillt en spurði bílstjórann hvort hann væri ekki staðkunnugur í borginni. Hann sagði svo ekki vera

Sjálfboðaliði frá Canberra

Eftir að hafa beðið í um þrjá stundarfjórðunga í hita framarlega í 60 sæta rútunni meðan beðið var eftir að skipað væri í hvert sæti var dyrunum loks lokað. Konan með möppuna bauð farþega velkomna til Ástralíu áður en hún sagði frá í hvað röð yrði farið á hótelin þrjú. Því næst sneri hún sér að bílstjóranum, eldri manni með barðastóran hatt, og gaf skipun um að leggja af stað um leið og hún nefndi fyrsta hótelið. Þá kom babb í bátinn. Bílstjórinn sagðist ekki rata á fyrsta áfangastað. Konan með möppuna virtist álíka áttavillt en spurði bílstjórann hvort hann væri ekki staðkunnugur í borginni. Hann sagði svo ekki vera. Hann væri sjálfboðaliði frá Canberra og á sinni fyrstu vakt við aksturinn

Ekki tók við betra þremur dögum síðar þegar við Sverrir pöntuðum rúmgóðan leigubíl til að flytja okkur frá hótelinu í þorp fjölmiðlamanna

Leiddist þófið

Þetta var fyrir tíma leiðsögutækja í símum. Upphófust rökræður milli bílstjórans og konunnar með skrifblokkina. Nokkrum farþegum leiddist þófið, þar á meðal mér og Sverri. Óskuðum við eftir að yfirgefa rútuna. Nóg væri komið af töfum og við lúnir. Okkur var hleypt út ásamt fleiri farþegum sem sáu sæng sína uppreidda. Tókum við Sverrir næsta leigubíl og átti bílstjóri hans ekki í nokkrum vændræðum með að skila okkur á hótelið. Ekki voru tafir vegna farangurs enda við aðeins með hvorn sinn bakpokann.

Næsta ferð

Ekki tók betra við þremur dögum síðar þegar við Sverrir pöntuðum rúmgóðan leigubíl til að flytja okkur frá hótelinu í þorp fjölmiðlamanna hvar við vorum leikana á enda með nokkrum þúsundum kollega. Farangurinn hafði skilað sér daginn áður og hann var talsverður enda Sverrir afar vel tækjum búinn.

Um tíma virtist hann villtur og staldraði við í tíma og ótíma til að líta á kortin og velta vöngum

Kinkaði glaður kolli

Starfsmaður hótelsins pantaði fyrir okkur bíl sem kom skömmu síðar. Við vorum með upplýsingar um dvalarstað og höfðum áætlað eftir að hafa rýnt í kort að framundan væri 30 til 40 mínútna akstur.  Farangrinum var raðað inn í bílinn og við komum okkur fyrir. Bílstjórinn tók við miða frá Sverri með fullkomnum upplýsingum um hvert ferð okkar væri heitið. Bílstjórinn tók glaður í bragði við miðanum og kinkaði kolli ótt og títt þangað til hann lagði hiklaust af stað.

Óperuhúsið í Sydney og fleiri mannvirki borgarinnar. Ljósmynd/EPA

Vegakort dregin fram

Fljótlega varð okkur ljóst að bílstjórinn væri ekki alveg viss um hvert hann ætti að fara. Á fyrsta rauða ljósi tók hann upp bók sem minnti helst á símaskrána heima á Íslandi og hóf að skoða vegakort. Notaði hann hvert tækifæri sem gafst á mörgum rauðum ljósum eftir það til að rýna í götukortin. Um tíma virtist hann villtur og staldraði við í tíma og ótíma til að líta á kortin og velta vöngum. Loks sneri hann sér að okkur  og veifaði miðanum góða með heimilisfanginu. Því miður skildum við ekki orð af því sem hann sagði en víst þótti okkur að um Asíumál væri að ræða.

Tók við handapat hjá bílstjóranum og muldur sem lauk með því að hann ók inn á bílastæði við verslunarmiðstöð og hélt áfram að rýna í kortin, fór frá einni síðu yfir á aðra og sneri þeim á allar hliðar. Góð ráð virtust dýr.

Góð ráð virtust dýr

Eftir talsverða snúninga út og suður, fram og til baka í sumarhitanum, tók við handapat hjá bílstjóranum og muldur sem lauk með því að hann ók inn á bílastæði við verslunarmiðstöð og hélt áfram að rýna í kortin, fór frá einni síðu yfir á aðra og sneri þeim á allar hliðar. Góð ráð virtust dýr. Bílstjórinn var villtur með tvo farþega sem þekktu ekkert til einhverstaðar í úthverfi Sydney en sem betur fer um hábjartan dag.

„No sign, no information, no nothing.“ Þetta endurtók hann eins og hann væri að fara með möntru milli þess sem hann sveiflaði öðrum handleggnum til áhersluauka.

Hringt í vin

Loks greip bílstjórinn til þess ráðs að hringja í vin. Sem betur fer virtist hann ekki fara bónleið til búðar. Eftir samtal og nokkurn æsing auk flettinga milli korta í bókinni var lagt af stað á ný. Áfram var ekið en reglulega var litið á kortin þegar færi gafst. Leið og beið þangað til að svo virtist af látbragði bílstjórans að hann væri kominn á sporið.  Upphófst þá muldur og virtist hann kunna örfá orð á ensku; „No sign, no information, no nothing.“ Þetta endurtók hann eins og hann væri að fara með möntru milli þess sem hann sveiflaði öðrum handleggnum til áhersluauka.

Ljósmynd/EPA

Virtist renna í skap

Okkur Sverri virtist ljóst að við værum komnir á sporið og að bílstjórinn væri að leita að kennileitum fjölmiðlaþorpsins. Áfram hélt bílstjórinn með möntruna, „No sign, no information, no nothing,“ og hækkað róminn þegar á leið auk þess sem honum virtist renna í skap.

Bílstjóranum tókst að skipta um akstursstefnu á næstu ljósum tuldrandi áfram möntruna

Á leiðinni í ranga átt

Hófum við félagar að líta í kringum okkur. Skyndilega rak ég augun í stórt skilti á vinstri hönd með áletrunum auk Ólympíumerkisins. Tókst okkur að koma bílstjóranum í einhvern skilning um að líta til vinstri, þar væri e.t.v. að finna þann stað sem við leituðum að. Þá vorum við reyndar á leiðinni í þveröfuga stefnu.

Björninn var ekki alveg unninn þótt við værum loksins komnir á leiðarenda, lausir við bílstjórann og möntru hans

Fundum hlið

Bílstjóranum tókst að skipta um akstursstefnu á næstu ljósum tuldrandi áfram möntruna, „no sign, no information, no nothing.“ Viti menn, skyndilega vorum við komnir að hliði. Á girðingu við hliðið var skilti þar sem fram kom að þarna væri útkeyrsla frá þorpi fjölmiðlamanna. Eftir nokkurt stapp tókst Sverri að sannfæra starfsmann, sem tal náðist af í gegnum talstöð við hliðið, að senda samstarfsmann sinn til móts við okkur. Sá gerði undantekningu, hleypti okkur inn á bílnum þótt ekið væri gegn einstefnu stutta leið. Frá hliðinu var okkur vísað skemmstu leið að gestmóttöku hvar við tókum farangur okkar úr bílnum og gerðum upp við bílstjórann háan reikning fyrir aksturinn. Áður hafði bílstjórinn farið með möntru sína, „no sign, no information, no nothing,“ nokkrum sinnum fyrir hliðvörðinn sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

Björnin var ekki unninn

Björninn var ekki alveg unninn þótt við værum loksins komnir á leiðarenda, lausir við bílstjórann og möntru hans, „no sign, no information, no nothing.“ Okkar beið barátta við að fá hvort sitt herbergið. Til stóð að setja okkur saman í herbergi þótt greitt hafi verið fyrirfram fyrir tvö herbergi með hálfs árs fyrirvara. Sem betur fer vorum við með greiðslukvittanir og tókst að herja út tvö herbergi eftir að þáverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ lagðist á árar með okkur. 

Ekki var bitið úr nálinni með þau samskipti fyrr en eftir marga fundi og veruleg óþægindi vikum saman eftir að heim var komið. Það er önnur saga sem vert er að rifja upp síðar

Bunki af frímiðum á barinn

Reyndar máttum við sætta okkur við að vera saman í herbergi fyrstu nóttina meðan maðurinn í gestamóttökunni sat við sinn keip.  Eftir að framkvæmdastjóri ÍSÍ blandaði sér í málið daginn eftir leystist herbergjamálið skyndilega. Í kaupbæti fylgdi bunki af frímiðum á barinn og margfaldar afsakanir á „misskilningnum“ vegna herbergjanna.

Gleði og leiðindi

Framundan voru 15 dagar af Ólympíuleikum með Völu Flosadóttur á verðlaunapalli í stangarstökki, Erni Arnarsyni í fjórða sæti í sundkeppninni og Norðurlandameti, Guðrúnu Arnardóttur í 7. sæti í 400 m grindahlaupi og fleiri ævintýrum. En einnig leiðindum í samskiptum við þáverandi formann Sundsambands Íslands. Ekki var bitið úr nálinni með þau samskipti fyrr en eftir marga fundi og veruleg óþægindi vikum saman eftir að heim var komið. Það er önnur saga sem vert er að rifja upp síðar.

Víst er að við Sverrir villtumst ekki eftir þetta í Sydney og komumst heilu og höldnu heim í byrjun október eins og til stóð.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -