„Varnarleikur og liðsheild skóp þennan sigur. Frábær frammistaða hjá mínu liði sem barðist allan leikinn,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs við handbolta.is en lið hans vann sannfærandi sigur á Fram í Olísdeild kvenna í gær, 27:23, og tyllti sér upp að hlið Vals í efsta sæti deildarinnar að loknum sjö umferðum.
„Við vorum agaðar í sókninni og vorum með réttar lausnir þar. Flæðið var gott og við fengum færin sem við vildum fá. Gott að fá framlag úr öllum stöðum. Ég er virkilega stoltur af liðsheildinni,“ sagði Andri Snær og ljóst er að góður árangur KA/Þórs-liðsins mun aðeins veita leikmönnum og þjálfara byr undir báða vængi.
„Þessi sigur gefur okkur gott sjálfstraust fyrir framhaldið, við erum búnar að spila vel undanfarið og vitum vel hvað við getum. Við spilum á okkar styrkleikum. En þetta var bara einn sigur, nú þurfum við að undirbúa okkur fyrir næsta leik sem verður gegn ÍBV hér heima,“ sagði Andri Snær Stefánsson við handbolta.is í gærkvöld.
Umræddur leikur við ÍBV sem vann FH í gær verður á laugardaginn í KA-heimilinu.