Hætt er við að kvennalið Vals hafi orðið fyrir blóðtöku í leiknum við ÍBV í gær þegar vinstri hornakonan, Ragnhildur Edda Þórðardóttir, missteig sig að því er virtist illa á vinstri fæti á 24. mínútu leiksins við ÍBV þegar hún fór inn úr vinstra horninu. Lina Cardell, leikmaður ÍBV, steig í veg fyrir Ragnhildi Eddu þegar hún fór inn úr horninu og var umsvifalaust sýnt rauða spjaldið af Svavari Ólafi Péturssyni og Sigurði Hirti Þrastarsyni dómurum.
Ragnhildur Edda var borinn af leikvelli í gullstól af tveimur samherjum sínum þar sem sjúkraþjálfari Vals tók við henni og hugaði að meiðslunum.
„Ég veit ekkert annað núna en hún meiddist á ökkla og það virtist vera slæmt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, spurður um meiðsli Ragnhildar Eddu, eftir leikinn í Origohöllinni í gær þar sem Valur tapaði með einu marki fyrir ÍBV, 21:20.