- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viss um að vera réttur maður á réttum stað með rétt lið

Snorri Steinn Guðjónsson og Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir að takast á við þetta verkefni. Um leið er ég stoltur yfir að geta kallað mig landsliðsþjálfara. Það er stórt fyrir mig,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson við handbolta.is eftir að hann var í gær ráðinn landsliðsþjálfari karla í handknattleik til þriggja ára.

„Ég verður örugglega stressaður þegar nær dregur fyrstu verkefnum okkar en það bara eðlilegt. Trú mín að ég geti náð árangri með landsliðinu er mikil að það lék aldrei vafi í mínum huga að ég vildi taka þetta starf að mér.

Ég er viss um að ég er réttur maður á réttum stað með rétt lið. Ég met það sem svo að samsetning liðsins henti mér sem þjálfara og öfugt. Svo verður að koma í ljós hvort ég hef rétt fyrir mér. En ég tel möguleika vera fyrir mig að koma inn í þennan hóp og gera vel,“ sagði Snorri Steinn og bætti við að leikmannahópurinn sem úr er að velja vera góðan. „Við eigum mjög spennandi landslið sem getur á næstu misserum náð mjög góðum árangri.“

Snorri Steinn í leik við Pólverja á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Mynd/EPA

Breyting en engin bylting

Snorri Steinn segir ekki standa til að umturna hlutunum. Sitt hlutverk verði að hreyfa aðeins til og reyna að fá liðið til þess að „rúlla af alvöru” eins og hann segir. „Takist það, verður gaman að sjá hversu langt liðið getur náð.“

Nýr landsliðsþjálfari segist ekki sjá fram á verulegar breytingar þótt einhverjar verði þær eins og alltaf með nýjum þjálfara. Ekki megi gleyma því að Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon sem stýrðu landsliðinu í fjórum síðustu leikjum undankeppni hafi gert lítilsháttar breytingar á leikstílnum. „Gummi Gumm er líka minn lærifaðir. Liðin hans er alltaf með allt sitt a hreinu,“ sagði Snorri Steinn og bætti við:

Verð sókndjarfur þjálfari

„Ég kem til með að verða sókndjarfur þjálfari. Hvort við keyrum hraðann upp jafn mikið og ég gerði með Val verður tíminn að leiða í ljós. Eitthvað munum við gera í þá veruna enda þykir mér það bara skemmtilegt auk þess sem ég tel mig vera með leikmenn í það. Breiddin í hópnum er góð. Fleiri þættir koma líka inn í,“ sagði Snorri Steinn sem reiknar með að næsti vetur fari í að skoða hvort landsliðið geti fært sig nær leik Valsliðsins eins og það gerði best í vetur sem leið. Ekki sé heldur hægt að bera saman staka leiki og heilt mót þar sem leiknir eru kannski átta leikir á 16 dögum.

Spennandi 21 árs lið

Snorri Steinn reiknar ekki með að miklar breytingar verði á næstunni á kjarna landsliðshópsins. Hann sé hinsvegar opinn fyrir að hleypa fleiri leikmönnum að gefist þess kostur. Minnir Snorri Steinn m.a. á að 21 árs landslið karla hafi á að skipa hópi athyglisverðra leikmanna. „Það eru spennandi leikmenn hér og þar,” sagði landsliðsþjálfarinn en vildi ekki draga fram nöfn einhverra þeirra. „Ég þarf að fylgjast með nokkrum, það er á hreinu.“

Hringir í sem flesta

Á næstu dögum ætlar að Snorri Steinn að setjast við símann og hringja í sem flesta leikmenn sem koma til greina í landsliðið.

„Ég ætla að kynna mig fyrir hverjum og einum og heyra ofan í þá. Þeir hafa þá að minnsta kosti númerið mitt hjá sér ef þeir þurfa að heyra í mér. Ég fer í fullt starf hjá HSÍ og þar með ætla ég og vil vera í góðum samskiptum við alla leikmenn sem koma til greina í landsliðið. Ég hef reynslu af því sem leikmaður að margt gerist á löngu tímabili. Stundum gengur vel og stundum illa. Fyrir því geta verið mismunandi aðstæður.“

Snorri Steinn í leik á í Danmörku í janúar 2014. Mynd/EPA

Fyrstu leikir í nóvember

Fyrstu verkefni landsliðsþjálfarans með leikmönnum verður æfinga- og keppnisvika í lok október og í byrjun nóvember. „Ég lagði á það mikla áherslu í samningum mínum við HSÍ að fá tvo landsleiki hingað heim strax í nóvember. Mér skilst að það hafi tekist. Ég vil kynnast leikmönnum í leikjum og því umhverfi sem þeim fylgir. Við fáum viku saman og ætlum að nýta hana eins vel og hægt er.

Markmiðið er að velja þokkalega stóran hóp svo sem flestir fái tilfinningu hver fyrir öðrum undir stjórn nýs þjálfaratreymis. Svo verða tveir landsleikir í janúar, áður en keppni hefst á Evrópumótinu. Tíminn mun ekkert vinna með mér frekar en öðrum landsliðsþjálfurum. Áður en ég veit af verð ég kominn til München,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson nýráðinn landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -