- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Snorri Steinn 19 árum eldri en Hilmar var sem landsliðsþjálfari!​​​​​

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Hann er of ungur og óreyndur,“ sögðu margir þegar nafn Snorra Steins Guðjónssonar bar á góma, sem næsti landsliðsþjálfari í handknattleik. Vissulega er Snorri Steinn ungur og óreyndur þjálfari, 41 árs. Hann tók við Valsliðinu sem spilandi þjálfari 2017; ásamt Guðlaugi Arnarsyni, en síðan lagði Snorri Steinn keppnisskóna á hilluna og tók alfarið við þjálfun Valsliðsins, sem hefur náð mjög góðum árangri undir hans stjórn.

Snorri Steinn býr yfir mikilli reynslu sem leikmaður; var lengi vel einn af lykilmönnum landsliðsins og lék með sjö liðum er hann var 14 ár í atvinnumennsku: Grosswallstadt, Minden og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi, GOG og AG København í Danmörku og frönsku liðinum Sélestat Alsace og Nîmes.

Eitt af meistaraliðum Víkinga á árunum í kringum 1980. Efri röð f.v. Guðjón Guðmundsson, Ólafur Jónsson, Árni Indriðason, Þorbergur Aðalsteinsson, Steinar Birgisson, Bogdan Kowalczyk, Sigurður Gunnarsson, Hilmar Sigurgíslason, Jón Valdimarsson formaður handknattleiksdeildar Víkings. Fremri röð f.v.: Heimir Karlsson, Óskar Þorsteinsson, Ellert Vigfússon, Páll Björgvinsson, Kristján Sigmundsson, Guðmundur Þórður Guðmundsson.

Snorri Steinn var ekki fæddur þegar faðir hans; Guðjón Guðmundsson, var aðstoðarmaður Bogdans Kowalczyk með hið sigursæla lið Víkings, en hann var tveggja ára þegar pabbi hans gerðist aðstoðarmaður Bogdans með landsliðið 1983 – 1990. Snorri Steinn ólst upp með handboltann í fanginu og það hefur mikið haft að segja í framgöngu hans innan sem utan leikvallar. Það er ekki töluð nein vitleysa við stofuborðið, þegar þeir feðgar ræða málin um handknattleik.

Snorri Steinn var í silfurliði Íslands á ÓL í Peking og var valinn í sjö manna lið ÓL ásamt Ólafi Stefánssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni. Þá lék Snorri Steinn með heimsliðinu og skoraði tvö mörk í 50 ára afmælisleik egypska handknattleikssambandsins, 40:39. 

Hilmar Björnsson fyrrverandi landsliðsþjálfari.

 Hilmar sá yngsti í heimi!

Þess má geta til gamans að Snorri Steinn er 19 árum eldri en Hilmar Björnsson, þegar hann var ráðinn landsliðsþjálfari 1968, þá 22 ára. Hilmar hafði ekki yfir mikilli reynslu að ráða, sem þjálfari. Var þjálfari unglingalandsliðsins, Víkings og leikmaður með KR. Hilmar er yngsti þjálfarinn, sem hefur verið landsliðsþjálfari í heiminum.

Jóhann Ingi Gunnarsson hafði heldur ekki yfir mikilli þjálfarareynslu að ráða 1978 er hann var ráðinn landsliðsþjálfari, 24 ára. Jóhann Ingi hafði þá verið þjálfari 21 árs landsliðsins.

Jóhann Ingi Gunnarsson fyrrverandi landsliðsþjálfari.

 Feðgar stjórna landsliðinu

Hallsteinn Hinriksson, FH, var landsliðsþjálfari Íslands 1958, 1961-1963. Stjórnaði landsliðinu í 12 leikjum. Sonur hans, Geir, stjórnaði landsliðinu í sjö leikjum í sérverkefni, þegar landslið fór til Bandaríkjanna 1987. Bogdan átti þá ekki heimangengt.

Geir Hallsteinsson í skotstöðu í landsleik.

 Með góðan aðstoðarmann

Snorri Steinn fær örugglega góðan styrk frá aðstoðarþjálfara sínum, Arnóri Atlasyni, 38 ára, sem eins og hann ólst upp með handboltann á milli handanna. Arnór var tveggja ára þegar pabbi hans, Atli Hilmarsson, lék við hvurn sinn fingur á HM í Sviss 1986. Atli var þjálfari á uppeldisárum Arnórs, sem hóf að leika með KA áður en hann fór í atvinnumennskuna. Lék með Magdeburg og Flensburg í Þýskalandi, í Kaupmannahöfn og með franska liðinu Saint-Raphaël áður en hann fór aftur til Danmerkur og gerðist leikmaður með Aalborg 2016-2018, en þá gerðist hann aðstoðarþjálfari hjá Álaborgarliðinu. Fyrir nokkru var hann ráðinn aðalþjálfari danska liðsins Team Tvis Holstebro og tekur við starfinu í næsta mánuði.

Kær kveðja,

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -