„Ég vona að allt sé klárt. Við höfum haft fínan tíma til að undirbúa okkur. Stelpurnar eru ferskar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik í eldsnöggu viðtali við handbolta.is einum og hálfum tíma áður en flautað verður til leiks Íslands og Þýskalands í lokaumferð F-riðils EM kvenna í handknattleik. Um er að ræða úrslitaleik fyrir bæði landslið um sæti í milliriðli.
„Við verðum að leika mjög öflugan varnarleik og skila okkur vel til baka til þess að eiga möguleika í að standa þýska liðinu á sporði. Það keyrir mjög grimmt fyrsta, annað og þriðja tempó og halda mikilli pressu,“ sagði Ágúst Þór spurður hvað helst verði að leggja áherslu á af hálfu íslenska landsliðsins.
Elísa veik
Elísa Elíasdóttir er veik og þess vegna er hún ekki í liðinu að þessu sinni eins og kom fram fyrr í dag. Eins hvílir Katrín Anna Ásmundsdóttir. Katrín Tinna Jensdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir taka sæti þeirra.
Viðureign Íslands og Þýskalands hefst klukkan 19.30 og verður handbolt.is m.a. með textalýsingu.