- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonandi komnir nógu nálægt til þess að vinna

Bjarki Már Elísson fagnar einu af átta mörku sínum í leiknum við Svartfellinga. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við viljum ljúka mótinu með sæmd gegn sterku norsku landsliði. Við teljum okkur vera að nálgast Norðmennina jafnt og þétt. Nú er spurningin sú hvort við erum komnir nógu nálægt til þess að vinna,” sagði Bjarki Már Elísson í samtali við handbolta.is í dag, daginn eftir að milliriðlakeppninni lauk og daginn fyrir lokaleikinn á Evrópumótinu 2022.

Farseðill á HM er undir

Framundan er leikur við Norðmenn um fimmta sætið á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi. Sigurliðið tryggir sér farseðilinn á heimsmeistaramótið sem fer fram að ári liðnu í Svíþjóð og Póllandi. Það er því eftir miklu að slægjast fyrir liðin. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.


„Norska liðið er öflugt og um leið mjög vel samæft enda verið skipað nánast sömu mönnum í fimm til sex ár. Þeim líkar vel að leika hratt, þeir sækja mikið maður á mann og eru líkamlega vel á sig komnir. Til viðbótar eru innan raða liðsins stjörnur eins og Sander Sagosen og Harald Reinkind. Við verðum leika vörnina eins og í síðustu leikjum en í henni hefur tekist að þróa heild þar sem góður skilningur ríkir á milli manna. Við verðum að halda í þetta og síðan er það klassíska varðandi sóknarleikinn,“ sagði Bjarki Már sem mætti ferskur til leiks gegn Svartfellingum í gær eftir viku í einangrun.

Hefur fengið covid áður

Bjarki sagðist ekki hafa fundið mjög fyrir afleiðingum veikinda þegar komið var út á völlinn í gær. Kannski hafi þolið ekki verið eins gott. „Ég hafði fengið covid áður, í mars í fyrra og mikið veikari þá en nú. Ég var reynslunni ríkari að þessu sinni, þekkti vel hvernig líkaminn svaraði veirunni,“ sagði Bjarki Már sem lék við hvern sinn fingur í gær og var með fullkomna nýtingu, átta mörk í átta skotum.

Glaðvaknaði og lét fjölskylduna vita

„Ég fékk að vita það upp úr klukkan sjö í gærmorgun að ég væri laus úr einangrun eftir að hafa komið vel út úr PCR prófi kvöldið áður. Áður en ég fékk fréttirnar var ég með hnút í maganum var að búa mig undir enn eitt testið. Þá færði Robbi [Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ] mér góðu fréttirnar. Ég glaðvaknaði og fór bara að huga að undirbúningi fyrir leikinn og láta fjölskylduna vita,“ sagði Bjarki Már sem hafði verið í viku í einangrun.

Leikmenn íslenska landsliðsins stigu sigurdans eftir leikinn í gær. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

„Ég lét fjölsylduna mína strax vita gleðifréttirnar. Hún hafði fundið vel á mér hversu illa innilokunin hafði farið með mig. Auk þess sem niðurstöður á fimmta og sjötta degi gáfu ekki ástæðu til mikillar bjartsýni sem varð ekki til að létta mér veruna.“


Bjarki Már sagðist hafa verið veikur fyrstu tvo til þrjá dagana, hálsbólga og kvef, auk þess sem gildi þau sem leitað er eftir mældust há í nokkra daga eftir að líkamlega heilsufar virtist batna.

Leiðinlegt að vera ekki með

„Fyrir utan einveruna þá var hrikalega erfitt að geta ekki verið með strákunum í leikjum, ekki síst í leiknum við Króatíu en fyrir hann vonuðumst við eftir að ná inn einhverjum leikmönnum vegna þess að maður sá að þreyta var farinn að segja til sín meðal þeirra sem stóðu í stafni,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -