- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonandi nýta menn tækifæri sín svo ég fái meiri hausverk næst

- Auglýsing -


„Það kostaði nokkurt bras að koma þessum hóp á blað og veruleg óvissa ríkt um nokkra leikmenn. Nýliðin helgi var ofan á annað ekki góð fyrir mig sem landsliðsþjálfara vegna meiðsla á mínum mönnum,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í dag í samtali við handbolta.is eftir að hann tilkynnti um val á landsliðshópnum fyrir leikina við Grikki í undankeppni EM 12. og 15. mars, ytra og heima.

Sjö eru meiddir

Ekki færri en sjö leikmenn eru meiddir og einn er nýbyrjaður aftur að leika að lokinni fjarveru. Meiðsli tóku sig upp aftur hjá Arnari Frey Arnarssyni og Ómar Inga Magnússyni um helgina auk þess sem Elvar Örn Jónsson bættist á langan lista.

Töluverðar breytingar voru þar af leiðandi á hópnum sem tilkynntur var í dag frá þeim hópi leikmanna sem tók þátt í HM.

„Sumar af breytingunum voru fyrirsjáanlegar vegna meiðsla en aðrar komu upp á elleftu stundu,“ sagði Snorri Steinn og vísar þar í meiðsli Arnars, Elvars og Ómars.

Afturkippur hjá Arnari Frey og Ómari Inga

„Þetta er okkar sterkasta lið, það er bara staðan. Það er fínt að vera kominn með nöfnin á blað og geta farið að einbeita sér að öðru varðandi undirbúninginn fyrir leikina við Grikki.”

Horft til framtíðar með valinu á Ísak

Athygli vekur að einn nýliði er í landsliðshópnum að þessu sinni, Ísak Steinsson markvörður Drammen. Hann er ekki valinn vegna meiðsla einhvers annars heldur segist Snorri vera að horfa til framtíðar með valinu á Ísak sem er tvítugur.

„Ég var búinn að ákveða það fljótlega eftir HM að nota næsta tækifæri til þess að velja Ísak. Ég fundaði fyrir nokkru með Björgvin Páli og sagði honum að ég hefði þetta í huga þótt ég telji ennþá að Viktor Gísli og Björgvin Páll séu okkar besta markvarðapar. Hinsvegar þykir mér, að athuguðu máli, rétt að hugsa fram í tímann. Það er erfitt þegar verkefnin eru fá að búa til landsliðsmenn, hvað þá markverði. Allir vita hvað reynsla skiptir miklu máli. Mér finnst því rétt að byrja á þessu verkefni,“ segir Snorri Steinn sem telur Ísak vera einn af efnilegri markvörðum landsins. Hann hafi staðið sig vel með Drammen og í leikjum U18, U19 og U20 ára landsliðsins á síðustu árum.

„Ísak er ungur, stendur sig vel með fínu liði í Noregi og á framtíðina fyrir sér.“

Svona er þessi bransi

Meðal leikmanna sem fá tækifæri í Grikkjaleikjunum en hafa ekki átt sæti í landsliðinu um skeið eru Andri Már Rúnarsson, Arnór Snær Óskarsson og Kristján Örn Kristjánsson, Donni.

„Þannig er þessi bransi. Breytingar og tækifæri gefast þegar menn meiðast. Allir hafa þeir áður verið í hóp hjá mér. Vonandi nýta menn bara tækifæri sín sem best svo ég hafi meiri hausverk þegar kemur að því að velja næsta landslið fyrir þar næsta verkefni á eftir og fleiri leikmenn verða vonandi á boðstólum,“ segir Snorri Steinn sem er hvergi banginn að mæta Grikkjum þótt nokkra sterka leikmenn vanti.

Elvar Örn verður frá keppni um tíma

Annað væri galið

„Þetta verður gott lið sem kemur saman í Grikklandi. Við förum þangað með það að markmiði að vinna. Annað væri galið,“ sagði Snorri Steinn sem vill fá fjögur stig úr leikjunum tveimur við Grikki.

Fleiri verða kallaðir inn

„Það þarf ekki að koma á óvart þótt ég bæti í hópinn fyrir ferðina, óháð því hvort menn komast heilir í gegnum vikuna sem framundan er eða ekki. Mér finnst bara of lítið að fara með 16 leikmenn í þetta verkefni. Við munum æfa tvisvar til þrisvar í Grikklandi fyrir leikinn og það getur allt gerst. Við þurfum að minnsta kosti að fylla skýrsluna þegar á hólminn verður komið. Ég ætla að sjá hvernig næstu leikir þeirra þróast. Ekki er útilokað að Gísli Þorgeir [Kristjánsson] verði kallaður inn. Ég er í góðu sambandi við alla strákana og fylgist vel með þeim,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is.

Lengra myndskeiðsviðtal er við Snorra Stein ofar í þessari grein.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -