- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonandi verðum við bara í góðu standi þegar HM hefst

Leikmenn U20 ára landsliðs kvenna eftir sigurinn á æfingamótinu í gærkvöld. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Eftir að síðasta undirbúningsleiknum af þremur lauk hjá U20 ára landsliði kvenna í handknattleik í gær hefst síðasti undirbúningur þjálfara og leikmanna liðsins fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Skopje í Norður Makedóníu á miðvikudaginn. Fyrsti leikurinn verður við Afríkumeistara Angóla. Á föstudaginn mætir íslenska landsliðið liðsmönnum Norður Makedóníu og loks bandaríska landsliðinu á laugardaginn. Tvö efstu lið hvers riðils komast í 16-liða úrslit, tvö neðstu lið hvers riðils leika um sæti 17 til 32.

Áfram æft

„Nú tekur við tveggja daga hvíld eftir átökin undanfarna daga þar sem áhersla verður lögð á endurheimt. Við munum einnig æfa rólega á mánudag og þriðjudag,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að landsliðið hafði lokið þriðja vináttuleiknum á jafn mörgum dögum í Skopje.

Leikir í H-riðli á HM 20 ára landsliða kvenna:
19. júní: Angóla - Ísland, kl. 14.
21. júní: Norður Makedónía - Ísland, kl. 16.
22. júní: Ísland - Bandaríkin, kl. 17.
- Allir leiktímar eru vitanlega miðaðir við klukkuna á Íslandi.
- Tvö efstu liðin leika um sæti eitt til sextán. Neðstu tvö liði halda áfram keppni um sæti sautján til 32.
- HM stendur yfir fram til sunnudagsins 30. júní.
- Handbolti.is ætlar eftir megni að fylgjast með mótum yngri landsliðanna í sumar eins og undanfarin sumur.

Fyrsti leikur við Afríkumeistarana

„Síðan förum við að leggja þunga í undirbúning okkar fyrir fyrsta leikinn á HM sem verður við Afríkumeistara Angóla. Það verður erfiður leikur. Á því leikur enginn vafi. Leikmenn Angóla eru líkamlega sterkar og leika mjög agressívan handbolta. Aðeins öðruvísi handbolti en við eigim að venjast. Við verðum þar af leiðandi að vera afar vel undirbúin fyrir leikinn. Við höfum séð leiki með Angóla á undirbúningsmótinu í Skopje. Meðal annars tapaði Angóla naumlega fyrir sterku rúmensku liði,“ sagði Ágúst Þór og bætir við að næstu dagar fari í undirbúning fyrir leikinn við Angóla. Ekkert verði spáð í næstu andstæðinga fyrr en fyrsta leiknum verður lokið.

Með fætur á jörðinni

Eftir þrjá sigurleiki á æfingamótinu, gegn Chile, Rúmeníu og Norður Makedóníu, segir Ágúst Þór nauðsynlegt að öll haldi sig á jörðinni. „Markmið okkar með þátttöku á æfingamótinu var ekki endilega að vinna alla leiki heldur að ná góðri frammistöðu og stíganda í okkar leik. Mér fannst það takast að flestu leyti.“

Höldum áfram að fínpússa

„Okkar markmið fram að fyrsta leik er að fínpússa leik liðsins og vonandi verðum við bara í góðu standi þegar HM hefst á miðvikudaginn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðs kvenna í handknattleik. Árni Stefán Guðjónsson er þjálfari ásamt honum auk þess sem Jóhann Ingi Guðmundsson er markvarðarþjálfari.

U20 ára landslið kvenna sem tekur þátt í HM 19. - 30. júní:
Markverðir:
Anna Karólína Ingadóttir, Grótta.
Ethel Gyða Bjarnasen, Fram.
Aðrir leikmenn:
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Fram.
Brynja Katrín Benediktsdóttir, FH.
Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum.
Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Selfossi.
Elísa Elíasdóttir, ÍBV.
Embla Steindórsdóttir, Stjörnunni.
Hildur Lilja Jónsdóttir, Aftureldingu.
Inga Dís Jóhannsdóttir, Haukum.
Katrín Anna Ásmundsdóttir, Gróttu.
Lilja Ágústsdóttir, Val.
Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukum.
Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Haukum.
Sylvía Sigríður Jónsdóttir, ÍR.
Tinna Sigurrós Traustadóttir, Selfossi.

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari.
Árni Stefán Guðjónsson, þjálfari.
Jóhann Ingi Guðmundsson, markvarðarþjálfari.
Þorvaldur Skúli Pálsson, sjúkraþjálfari.
Guðríður Guðjónsdóttir, yfirfararstjóri.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -