- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonbrigði hjá Færeyingum – tókst ekki að tryggja sér HM-farseðil

Færeyska landsliðið sem tók þátt í EM 20 ára landsliða í Slóveníu. Ljósmynd/EHF
- Auglýsing -

Færeyingar höfnuðu í 18. sæti á Evrópumóti 20 ára landsliða karla í handknattleik í dag þegar lokið var að leik um sæti 13 til 24. Þeir töpuðu, 35:32, fyrir Sviss í leiknum um 17. sætið. Leikurinn hafði ekki mikla þýðingu.

Fimmtán efstu lið mótsins tryggja sér keppnisrétt á heimsmeistaramótið sem fram fer í Póllandi næsta sumar og ljóst strax eftir riðlakeppnina á laugardaginn fyrir viku að einn farseðlana 15 kæmi ekki í hlut Færeyinga sem unnu fimm leiki en töpuðu þremur á mótinu.

Fyrir mótið höfðu Færeyingar sett stefnuna á öðlast sæti á HM 21 árs liða. Þeir geta sótt um boðskort (wild card) á mótið.

Færeyingar voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:17. Þetta var þriðji leikur beggja liða á jafnmörgum dögum og áttundi leikurinn á 11 dögum. Þreytan tók sinn toll auk þess sem aðeins 14 leikmenn voru klárir í slaginn í færeyska liðinu vegna meiðsla tveggja leikmanna.

Færeyingar, sem höfnuðu í 9. sæti á EM 18 ára landsliða fyrir tveimur árum eftir sigur á íslenska landsliðinu, voru einstaklega óheppnir þegar þeir drógust í riðil með Spánverjum, Frökkum og Sviss. Töp fyrir Spáni og Frakklandi og naumur sigur á Sviss nægði Færeyingum ekki til þess að komast í keppni um sæti níu til sextán og eiga þar með möguleika á HM-farseðli. Til þess hefði sigurinn á Sviss í riðlakeppninni þurft að vera meiri en eitt mark og töpin fyrir Frakklandi og Spáni að vera minni.

Óli markahæstur

Þrátt fyrir allt stefnir í að Óli Mittún verði markakóngur Evrópumótins. Hann skoraði 76 mörk í átta leikjum. Ósennilegt er að Norðmaðurinn Patrick Helland Andersson skjóti Óla ref fyrir rass í síðasta leik norska landsliðsins gegn Íslendingum á morgun. Til þess þarf Andersson að skora 17 mörk.

Þess má geta að Óli varð markakóngur EM 18 ára landsliða fyrir tveimur árum og var einnig valinn mikilvægasti leikmaður mótsins.

EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -