Haukur Þrastarson og félagar í rúmenska meistaraliðinu Dinamo Búkarest gengu vonsviknir af leikvelli í Pelister í Norður Makedóníu eftir að þeir töpuðu fyrir Eurofarm Pelister, 25:24, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld. Nikola Mitrevski markvörður Pelister innsiglaði bæði stigin á síðustu sekúndum þegar hann varði langskot Ali Zein.
Þetta var annað tap Dinamo í röð eftir að keppni hófst á ný í Meistaradeildinni eftir HM. Liðið hefur gefið verulega eftir en það byrjaði af krafti framan af leiktíðinni. Verða leikmenn að halda vel á spilunum í tveimur síðustu umferðunum til þess að missa ekki af lestinni sem flytur liðin í öðru til sjötta sæti riðilsins í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.
Haukur skoraði eitt mark úr tveimur skotum og átti auk þess eina stoðsendingu. Stanislav Kasparek var markahæstur með fimm mörk.
Leikmenn Pelister hafa ekki gefið upp vonina um að ná sjötta sæti riðilsins. Pelister stendur jafnt Wisla Plock að stigum fyrir tvær síðustu umferðirnar, tveimur stigum á eftir Dinamo.
Dinamo og Wisla Plock mætast í Búkarest í næstu viku. Wisla á síðan leik við Sporting Lissabon í lokaumferðinni þegar Dinamo mætir Fredericia HK sem hefur misst af öllum möguleikum á sæti í útsláttarkeppninni. Pelister á eftir útileik við Füchse í Berlin og heimaleik við PSG.
Nielsen með á ný
Í síðasta leik 12. umferðar í B-riðli unnu Evrópumeistarar Barcelona pólska liðið Industria Kielce, 30:28, á heimavelli. Emil Nielsen var í marki Barcelona á nýjan leik eftir að hafa verið fjarri góðu gamni í deildarleik um síðustu helgi. Hann varði 13 skot, 32,5%.
Frakkinn Timothey N’guessan var markahæstur hjá Barcelona með sex mörk. Luis Frade og Aleix Gómez skoruðu fjögur mörk hvor. Jorge Maqueda skoraði sex sinnum fyrir Kielce sem er í sjöunda og næst neðsta sæti riðilsins. Barcelona er efst.
Staðan í A-riðli:
Staðan í B-riðli: