„Darri fer í skoðun á morgun [í dag] hjá Brynjólfi lækni og í myndatöku við fyrsta tækifæri. Það er klárlega einhver skaði í hnénu sem mun halda honum frá keppni um tíma, hversu lengi er ekki ljóst ennþá,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka og faðir handknattleiksmannsins Darra Aronssonar sem meiddist á vinstra hné í viðureign KA og Hauka í Olísdeild karla í KA-heimilinu á síðasta fimmtudagskvöld.
„Hvort um er að ræða skaða í liðþófa eða það versta, aftur slitið krossband, er ekki hægt að slá föstu á þessari stundu. Við vonum það besta og búum okkur undir það versta.
Hvað sem þetta er þá er það áfall fyrir Darra og Haukaliðið að missa hann út um lengri eða skemmri tíma. Hann var kominn í mjög gott form og hafði komið inn með mikinn kraft í okkar leik, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Aron ennfremur.
Darri hefur skoraði 27 mörk í sjö leikjum með Haukum á leiktíðinni.
Engin áhætta tekin með Geir
Spurður um Geir Guðmundsson, sem fékk þungt högg í viðureign Hauka og ÍR fyrir rúmri viku, með þeim afleiðingum að hann var fluttur á sjúkrahús með heilahristing sagði Aron að Geir væri á batavegi. „Það verður ekki tekin nein áhætta með Geir. Hann fær allan þann tíma sem hann þarf til þess að ná heilsu. Þegar um höfuðhögg og heilshristing er að ræða er ekki hægt að taka minnstu áhættu,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is í gærkvöld.