- Auglýsing -
- Auglýsing -

Voru 30 mjög vondar mínútur

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs leika Evrópuleikina á Spáni. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ég verð að horfa á síðari hálfleikinn aftur til þess að leita að almennilegum skýringum á því sem miður fór. Það má segja að það hafi verið sama hvað við reyndum, ekkert gekk upp,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara KA/Þórs í handknattleik kvenna eftir að lið hans tapaði með sjö marka mun fyrir Fram í meistarakeppni HSÍ í KA-heimilinu í dag, 28:21.


„Gegn jafn góðu liði og Fram hefur á að skipa þá eru hver mistök dýr. Fram nýtir öll mistök andstæðinganna sinna út í ystu æsar. Fram-liðið keyrði bara yfir okkur í síðari hálfleik, var hreinlega mikið betra en við að þessu sinni. Ég óska þeim til hamingju með verðskuldaðan sigur,“ sagði Andri Snær og var fremur daufur í bragði eins gefur að skilja.


Þrátt fyrir að Andri hafi alls ekki verið sáttur við leik KA/Þórs í fyrri hálfleik þá var staðan þó jöfn að honum loknum 11:11. Í síðari hálfleik fór hinsvegar flest í skrúfuna hjá Íslandsmeisturunum sem fengu á sig 17 mörk og skoruðu aðeins 10.


Andri Snær sagði eitt og annað hafi verið reynt í síðari hálfleik til þess að bæta úr skák. „Okkur gekk hinsvegar illa að höggva á þann hnút sem var kominn á sóknarleik okkar. Þetta voru 30 mjög vondar mínútur. Engu að síður er þetta leikur sem við getum dregið mikinn lærdóm af. Um næstu helgi tekur við bikarkeppnin. Við nýtum þessa reynslu þegar kemur að næsta leik. Við eigum ansi hreint margt inni,“ sagði Andri Snær Stefánsson þjálfari Íslandsmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is í KA-heimilinu í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -