- Auglýsing -
- Auglýsing -

Voru eins og kálfar að vori

Árni Bragi Eyjólfsson skoraði 12 mörk fyrir KA í 13 skotum á Seltjarnarnesi í dag. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Leikmenn Gróttu og KA voru eins og kálfar sem hleypt er út að vori er þeir mættust a fyrsta sumardegi í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í dag í fyrsta leik Olísdeildar karla eftir mánaðarhlé. Hraðinn var mikill og fjöldi sókna sjálfsagt verið hátt í eitthundrað og mörkin alls sjötíu. KA-menn hrósuðu sigri með fjögurra marka mun, 37:33, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:16.


Með sigrinum hafði KA sætaskipti við Stjörnuna sem sat í áttunda sæti en verður að sætta sig við það níunda. Hvort lið hefur leikið fimmtán leiki. Grótta er sem fyrr í 10. sæti með 10 stig.


Eins og tölurnar gefa til kynna var hraðinn mikill og sóknirnar stuttar frá upphafi leiksins. Grótta var öflugri framan af og náðu m.a. tveggja marka forskoti upp úr miðjum fyrri hálfleik, 9:7. Þá kom til skjalanna Bruno Bernat, ungur markvörður KA. Hann lokaði markinu um hríð, tók alls átta skot á stuttum kafla án þess að fá á sig mark. Þar með snerist leikurinn KA-liðinu í hag. Liðið skoraði þrjú mörk í röð og hélt eins til þriggja marka forystu hálfleikinn á enda.


Gróttu tókst aldrei í síðari hálfleik, þrátt fyrir mikinn ákafa og á tíðum full mikinn, að minnka forskot KA nema niður í eitt mark í nokkur skipti. Þótt ótrúlegt megi virðast þá var talsvert um einföld mistök í sóknarleik Gróttu sem leikmenn KA nýttu sér til þess að skora hin svokölluðu auðveldu mörk. Þau lögðu grunn að áframhaldandi forskoti liðsins.


Þegar á síðari hálfleik leið náðu Gróttumenn að minnka forskotið niður í tvö mörk, nokkrum sinnum, t.d. 29:27 og 35:33. Þá var eins og manninn mælt, allt fór í skrúfuna hjá Gróttu og KA-menn nýttu sér hver mistök til þess að viðhalda eða auka forskot sitt.


Árni Bragi Eyjólfsson og Áki Egilsnes fóru á kostum í liði KA. Þeir skoruðu samtals 20 mörk, þar af skoraði sá fyrrnefndi 12 úr 13 skotum. Árna brást bogalistin í einu skoti þegar skammt var til leiksloka. Fyrir utan þá skorpu sem Bruno tók í síðari hluta fyrri hálfleiks var markvarslan í lágmarki hjá Akureyringum.


Birgir Steinn Jónsson var yfirburðamaður hjá Gróttu með 11 mörk. Andri Þór Helgason nýtti sín færi vel eins og yfirleitt. Markvarslan var óvenjulítil enda var varnarleikurinn ekki burðugur, sama hvað var reynt.


Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 11, Andri Þór Helgason 7/1, Daníel Örn Griffin 6, Ágúst Emil Grétarsson 3, Gunnar Dan Hlynsson 2, Satoru Goto 1, Ingólfur Arnar Þorgeirsson 1, Ólafur Brim Stefánsson 1, Jakob Ingi Stefánsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 4, 15,4% – Ísak Arnar Kolbeinsson 2, 17,6%.
Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 12/1, Áki Egilsnes 8, Ólafur Gústafsson 5, Jóhann Geir Sævarsson 4, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Einar Birgir Stefánsson 3, Patrekur Stefánsson 2.
Varin skot: Bruno Bernat 10, 40% – Nicholas Satchwell 4, 18,2%.

Öll tölfræði leiksins á HBstatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -