„Einfalda svarið er, og með því er ég ekki að taka neitt af leikmönnum Fram sem voru skynsamir, skoruðu góð mörk og spiluðu vel, þá vorum við bensínlausir í mörgum þáttum. Við fengum á okkur 35 mörk og gerðum okkur seka um alls konar auladót,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í kvöld eftir að Valur tapaði fyrir Fram, 35:32, í átta liða úrslitum Poweradebikarsins.
„Mér fannst vanta upp á orkustigið hjá okkur. Þannig hefur það bara verið í undanförnum fjórum fimm leikjum,“ sagði Óskar Bjarni sem sagði það ekki vera neina afsökun því Fram-liðið hafi leikið vel unnið fyrir vikið. „Ég tek ekkert af Fram-liðinu,“ sagði Óskar Bjarni og óskaði Fram til hamingju með sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins.
Bjarni fékk heilahristing
Óskar Bjarni sagði liðið hafa saknað Bjarna í Selvindi sem fékk heilahristing undir lok leiksins við Stjörnuna á dögunum. Það munar um hvern mann í jöfnum og spennandi leikjum, ekki síst þegar menn taka að þreytast.
„Það komu kaflar í leikinn þar sem við náðum frumkvæðinu en tókst ekki að fylgja því eftir. Kannski snýr það einhverju leyti að mér að nýta óreyndari menn meira í fyrri hálfleik en á móti kemur að þegar að bikarleik kemur þá vill maður oft láta reyna meira á reyndari leikmenn. Fyrsta og fremst þá var orkustigið ekki nógu hátt hjá okkur,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals.
Lengra viðtal er við Óskar Bjarna í myndskeiði í þessari grein.
Sjá einnig: Bikarmeistararnir eru úr leik – Framarar öflugri á lokakaflanum