„Ég var ánægður með strákana stóran hluta leiksins. Þeir léku mjög góða vörn lengst af og við fengum um leið góða markvörslu. Við vorum hinsvegar í vandræðum með sóknarleikinn allan leikinn, það varð okkur að falli. Við vorum með alltof marga tapaða bolta,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu í samtali við handbolta.is eftir fimm marka tap fyrir Aftureldingu, 30:25, í Olísdeild karla í handknattleik að Varmá í kvöld.
Orkan í hópnum var góð
„Hvað sem öðru líður þá fengum við margt gott úr leiknum sem mun nýtast okkur á næstu dögum við áframhaldandi vinnu. Sumir leikmenn voru góðir í vörn, aðrir voru skárri í sókn. Orkan í hópnum var góð og menn að reyna sitt besta,“ sagði Róbert ennfremur.
Vinna ekki tvo leiki í röð
Gróttumenn halda takti, ef svo má segja, þ.e. þeir vinna annan hvern leik eða þar um bil og hafa ekki náð að tengja saman tvo sigurleiki, eins og stundum er sagt.
„Því miður er það svo hjá okkur en á móti kemur að það er ekki auðvelt að mæta í Mosfellsbæ og vinna. Aftureldingarliðið er flott og vel skipað. Við megum ekki hengja haus þrátt fyrir tap. Það er bara út með kassann og áfram gakk. Næsti leikur,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu í samtali við handbolta.is eftir leikinn að Varmá í kvöld.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildunum.