Alfreð Gíslason og leikmenn hans í þýska landsliðinu unnu sannfærandi sigur á Norðmönnum, 28:24, í leik um 5. sætið á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Stokkhólmi. Leiknum er rétt nýlega lokið. Þýska liðið hafði yfirhöndina frá upphafi til enda. Staðan var 16:13, eftir fyrri hálfleik, Þjóðverjum í vil.
Andreas Wolff markvörður Þjóðverja átti stórleik í markinu og var e.t.v. megin munurinn sem skildi liðin að þegar upp var staðið. Hann varði m.a. þrjú af fjórum vítaköstum sem norska liðið fékk í fyrri hálfleik og alls 18 skot í leiknum. Noregi tókst einu sinni að jafna í fyrri hálfleik, 10:10, eftir 19 mínútur.
Þýska liðið hóf síðari hálfleik af krafti og var komið með sex marka forskot, 20:14, eftir liðlega fimm mínútur.
Liðin áttust einnig við í lokaumferð milliriðlakeppni mótsins. Þá höfðu Norðmenn betur, 28:26.
Mörk Þýskalands: Johannes Golla 5, Luca Witzke 5, Kai Häfner 5, Juri Knorr 4, Lukas Stutzke 3, Rune Dahmke 2, Lukas Mertens 2, Christoph Steinert 1, Jannik Kohlbacher 1.
Mörk Noregs: Magnus Gullerud 6, Harald Reinkind 4, Sander Sagosen 2, Sebastian Barthold 2, Christian O`Sullivan 2, Kevin Gulliksen 2, Tobias Grøndahl 2, Kristian Bjørnsen 1, Magnus Abelvik Rød 1, Petter Øverby 1, Gøran Johannessen 1.