Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen unnu stórsigur á Spor Toto SK frá Tyrklandi, 38:22, í fyrri viðureign liðanna í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik í dag en leikið var í Þýskalandi. Liðin mætast öðru sinni á morgun í keppnishöllinni í Östringen og má telja næsta víst að Ýmir Örn og liðsfélagar séu öruggir um sæti í annarri umferð keppninnar.
Ýmir Örn skoraði ekki mark í dag en var fastur fyrir í vörninni og átti tvær stoðsendingar.
Geta snúið við taflinu heima
Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans í danska liðinu GOG töpuðu með fjögurra marka mun, 33:29, fyrir Celje Lasko þegar leikið var í Celje í Slóveníu í dag.
Viðureignin var einnig liður í 1. umferð Evrópudeildarinnar. Síðari viðureignin fer fram í Danmörku eftir viku. Djúpt er á upplýsingum um þátttöku Viktors Gísla í leiknum. Danski landsliðsmaðurinn Mathias Gidsel skoraði 10 mörk fyrir GOG og heldur þar með uppteknum hætti frá Ólympíuleikunum þegar hann var valinn verðmætasti leikmaður handknattleikskeppni karla.
Hannes Jón Jónsson og lærisveinar hans í austurríska meistaraliðinu Alpla Hard töpuðu á heimavelli fyrir Toulouse, 27:23. Sá leikur var einnig í 1. umferð Evrópudeildarinnar.
Önnur úrslit í dag:
Maccabi Le Zion – CSKA Moskva 26:29.
Bjerringbro/Silkeborg – Ystads IF 22:23.
Csurgoi – Dobrogea Sud 23:27.
Azoty-Pylawy – Sesvete 29:21.
HC Kriens – Benfica 24:31.
Aguas Santas – La Rioja 26:26.