Ýmir Örn Gíslason verður gjaldgengur með íslenska landsliðinu í næsta leik Evrópumótsins í handknattleik. Hann fékk rautt spjald snemma í síðari hálfleik í gærkvöld gegn Ungverjum. Dómarar mátu brot Ýmis Arnar ekki svo alvarlegt til að þeir tilkynntu það með skýrslu. Mikill léttir var í herbúðum íslenska landsliðsins þegar ljóst var að rauða spjaldið drægi ekki dilk á eftir sér.
Iturizza verður í banni
Aganefnd Evrópumótsins hefur síðustu daga úrskurðað leikmenn í leikbann hafi þeir brotið gáleysislega af sér í leikjum. Þannig er t.d. farið um brot Victor Iturizza, leikmanns portúgalska landsliðsins, sex mínútum fyrir leikslok í viðureign Portúgals og Danmerkur í gærkvöld. Iturizza var úrskurðaður í eins leiks bann í morgun og verður þar af leiðandi ekki með portúgalska landsliðinu á morgun gegn þýska landsliðinu í fyrstu umferð í milliriðli eitt.

