„Það var yndislegt að ljúka HM með sigri. Ég er hrikalega stolt af liðinu og hvernig við mættum til leiks og héldum alltaf áfram þótt það kæmu slæmir kaflar með áhlaupum frá Færeyingum. Við höfðum allan tímann trú á að við myndum vinna leikinn,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins með átta mörk, í sigrinum á Færeyingum í lokaleik landsliðsins á HM í Westfalenhalle í Dortmund í kvöld, 33:30.
„Maður er ekki að spila á HM á hverjum degi og því var það markmið okkar að njóta leiksins í botn og það gerðum við svo sannarlega,“ sagði Elín Klara sem var í stöðugum árásum á færeysku vörnina í leiknum í kvöld.
„Við héldum okkur við leikskipulagið frá upphafi, sama á hverju gekk. Síðan var mjög klókt að fara í sjö á sex í sókninni undir lokin. Það splundraði varnarleik færeyska liðsins í lokin,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir.
Lengra viðtal við Elínu Klöru er í myndskeiðinu hér fyrir ofan.
Ísland lauk keppni á HM með baráttusigri á Færeyingum
HM kvenna ”25 – dagskrá, milliriðlar, úrslit, staðan




