- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Zorman velur hópinn sem mætir Íslandi – tveir reynslumenn fjarverandi

Uros Zorman landsliðsþjálfari Slóvena á Ólympíuleikunum í sumar. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Uros Zorman, landsliðsþjálfari Slóvena, hefur valið hóp 20 leikmanna fyrir átökin á heimsmeistaramótinu í handknattleik í næsta mánuði. Slóvenar, sem höfnuðu í 4. sæti í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum, verða í riðli með íslenska landsliðinu, Grænhöfðaeyjum og Kúbu. Viðureign Íslands og Slóveníu verður í þriðju og síðustu umferð riðlakeppninnar 20. janúar í Zagreb og hefst klukkan 19.30.

Án Dolenec og Bombac

Athygli vekur við valið á hópnum að Íslandsvinurinn Jure Dolenec og Dean Bombac eru ekki í hópnum en báðir eru þrautreyndir og hafa lengi verið með landsliðinu. Fram kemur í tilkynningu frá Slóvenum að báðir hafi ákveðið að draga sig út úr landsliðinu eftir Ólympíuleikana í sumar. Þeir eru hinsvegar tilbúnir að hlaupa í skarðið ef þörf verður á. Dolenec hefur verið fyrirliði síðustu árin. Blaz Janc leikmaður Barcelona hefur tekið við fyrirliðabandinu.

Fyrsta æfing 2. janúar

Zorman og leikmenn hans koma saman til fyrstu æfingar 2. janúar. Zorman segir að vegna Ólympíuleikanna í sumar hafi hann ákveðið að slaufa æfingum á milli jóla og nýárs og gefa leikmönnum tækifæri til þess að vera með fjölskyldum sínum. Þess utan leika nokkrir með þýskum félagsliðum sem verða við keppni á milli hátíðanna.

Þrír leikir fyrir HM

Slóvenar leika þrjá vináttuleiki fyrir EM. Hinn 5. janúar verður leikið við landslið Alsír fyrir luktum dyrum í Umag. Tveimur dögum síðar verður opinber landsleikur við Katar í Koper. Veselin Vujović fyrrverandi landsliðsþjálfari Slóvena er núverandi þjálfari landsliðs Katar.

Þriðji og síðasti vináttuleikurnn verður gegn Degi Sigurðssyni og liðsmönnum hans í króatíska landsliðinu í Zagreb 10. janúar.

Haft er eftir Zorman í tilkynningu slóvenska handknattleikssambandsins að ekki hafi verið auðvelt að fá landsleik svo skömmu fyrir HM. Þess vegna hafi verið ákveðið að þiggja boð Króata þótt flest bendi til þess að lið þjóðanna mætist á nýjan leik í milliriðlakeppni HM.

Slóvenski HM-hópurinn

Markverðir:
Joze Baznik, PAUC.
Klemen Ferlin, Industria Kielce.
Urban Lesjak, RK Trimo Trebnje.
Aðrir leikmenn:
Blaz Balgotinsek, Flensburg-Handewitt.
Nejc Cehte, RK Eurofram Pelister.
Nik Heningman, Chartres.
Kristjan Horzen, Gummersbach.
Blaz Janc, Barcelona.
Mitja Janc, Wisla Plock.
Miha Kavcic, RK Vojvodina.
Tadej Kljun, Balatonfüreti.
Tilen Kodrin, Gummersbach.
Urban Lesjak, RK Trimo Trebnje.
Borut Mackovsek, Pick Szeged.
Domen Makuc, Barcelona.
Domen Novak, Wetzlar.
Rok Ovnicek, Nantes.
Stas Slatinek Jovcic, Grosist Slovan.
Matic Suholeznik, Saran Loiret.
Aleks Valh, Aalborg Håndbold.
Miha Zarabec, Wisla Plock.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -