- Auglýsing -
- Arnar Freyr Arnarsson lék sinn 100. landsleik í gær þegar íslenska landsliðið mætti Georgíu í annarri umferð undankeppni EM 2026 í Tíblísi. Arnar Freyr skoraði eitt mark í leiknum og hefur þar með skorað 101 mark fyrir landsliðið.
- Arnari Frey var ekki til setunnar boðið í nótt, eða skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma, lagði íslenska landsliðið af stað frá Tíblisi. Rútan fór frá hóteli kl. 3.30 að staðartíma, 23.30 á sunnudagskvöldi á Íslandi. Flestir átti flugferð frá landinu tveimur til þremur stundum eftir að lagt var af stað frá hóteli.
- Arnar Freyr fór ásamt nokkrum leikmönnum sem leika með þýskum liðum frá Tíblisi til Varsjár og þaðan til Frankfurt. Arnar Freyr og Elvar Örn Jónsson eiga að mæta á æfingu hjá MT Melsungen í kvöld. Framundan er leikur við Tusem Essen í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á miðvikudaginn. Roberto Parrondo þjálfari Melsungen gefur engan afslátt.
- Viðureignin í Tíblisi á sunnudaginn var fyrsti landsleikur á milli Íslands og Georgíu í handknattleik karla í flokki A-landsliða. Eins og áður hefur komið fram vann íslenska landsliðið leikinn með fimm marka mun, 30:25.
- Viktor Gísli Hallgrímsson klæddist A-landsliðspeysunni í 60. sinn í viðureigninni við Georgíu í Tíblisi á sunnudaginn. Hann var allan leiktímann í markinu og varði 14 skot, 36%, tæplega. Viktor Gísli hefur skorað eitt mark í leikjunum 60.
- Bjarki Már Elísson rauf 400 marka múrinn með landsliðinu með þriðja marki sínu í leiknum í Tíblisi í gær. Bjarki Már gerði gott betur, skoraði alls fjögur mörk og hefur þar með skorað 401 mark í 118 landsleikjum.
- Björgvin Páll Gústavsson er lang leikjahæsti leikmaður A-landslið karla um þessar mundir. Hann lék sinn 273. leik í Tíblisi og hefur oft haft meira að gera en að þessu sinni.
- Björgvin Páll er eini leikmaður íslenska landsliðsins sem kemur heim til Íslands í dag enda sá eini sem sem leikur með íslensku félagsliði af þeim 16 sem fóru í sigurförina til Tíblisi. Að henni lokinni er íslenska landsliðið efst í 3. riðli undankeppninnar með fjögur stig. Bosníumenn og Grikkir hafa tvö stig hvorir. Georgíumenn reka lestina án stiga.
- Leikurinn í Tíblísi var einnig síðasta leikur íslensks landsliðs í búningum frá Kempa í Þýskalandi en 20 ára samstarfi HSÍ og Kempa lokið.
Sjá einnig: Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan
- Auglýsing -