„Við erum að fara í hörkuverkefni gegn góðu liði. Það verður gaman að sjá hvernig okkur gengur,“ sagði Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA en lið hans mætir HC Fivers í Vínarborg í kvöld og á morgun í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla. Fyrri viðureignin hefst klukkan 17.30 í dag.
„Mér sýnist að leikmenn HC Fivers vilji halda uppi hraðanum í leiknum eins og við viljum einnig gera. Við verðum þar af leiðandi að reyna að stjórna hraðanum eins og frekast er kostur en fyrst og fremst leika vel til þess að ná hagstæðum úrslitum,“ sagði Jónatan Þór sem hefur vitanlega þá stefnu að komast áfram í næstu umferð keppninnar.
Fyrri leikurinn verður prófraun á hvort það sé raunhæft eða ekki. HC Fivers er í þriðja sæti austurrísku deildarinnar með 12 stig eftir sjö leiki, aðeins stigi á eftir efsta liðinu Alpla Hard sem Hannes Jón Jónsson þjálfar.
KA tók síðasta þátt í Evrópukeppni félagsliða haustið 2005. Eftir tvo sigurleiki á Mamuli Tbilisi, 45:15 og 50:15, í KA-heimilinu í byrjun nóvember mætti KA rúmenska liðinu Steuau Búkarest í 16-liða úrslitum. KA vann heimaleikinn 3. desember, 24:23, en tapaði síðari leiknum í Búkarest 11. desember 2005, 30:21. Steaua var með afar sterkt lið á þessum tíma og vann keppnina vorið 2006.
Leika ekki mjög kerfisbundinn leik
„Fyrsta og fremst fylgir þátttökunni tilbreyting. Við erum að mæta liði sem við þekkjum lítið þótt við höfum farið vel yfir upptökur af leikjum þeirra. Lið HC Fivers leikur að mörgu leyti óhefðbundinn handbolta, að minnsta kosti eins og við eigum að venjast heima. Þeir leika frjálsan handbolta með stimplunum, ekki eins kerfisbundinn leik og vaninn er heima á Íslandi,“ sagði Jónatan Þór sem er þess fullviss að lærisveinar hans hafi lært af slæmri reynslu frá viðureigninni við Selfoss á dögunum þegar liðið steinlá.
Aldrei spurning um að taka þátt
„Við erum galvaskir og ætlum að leggja allt í sölurnar. Ferðin og þátttakan er mikil reynsla fyrir okkur því flestir leikmenn KA hafa staðið í þeim sporum áður að leika við erlend félagslið eða að leika utan Íslands. Enda lék aldrei vafi á því í okkar huga að grípa gæsina og taka þátt í Evrópukeppni þegar færi gafst.
Þótt það kosti mikla vinnu meðal leikmanna og stjórnarmanna að taka þátt finnst okkur það eina rétta að vera með. Menn verða bara betri í handbolta við að taka þátt í Evrópukeppni, mæta nýjum andstæðingum og öðlast nýja reynslu. Fyrir utan að þá þjappar ferð eins og þessi hópnum saman,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA í samtali við handbolta.is í gær.
Handbolti.is fylgist með leiknum í kvöld í textalýsingu.
Leikmenn KA gerðu kvöldmatnum í gær góð skil.