„Við getum verið stoltir af okkar frammistöðu inni á leikvellinum þrátt fyrir tap og félagið getur verið stolt af umgjörðinni og stemingunni sem byggð var upp. Troðfullt hús og frábært að taka þátt í þessu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals við handbolta.is í gærkvöld eftir fimm marka tap Vals, 37:32, í 3. umferð B-riðils Evrópudeildarinnar.
Áttum kannski ekki meira inni
„Við gáfum Flensburgliðinu hörkuleik sem þeir þurftu að hafa fyrir. Þegar öllu er á botninn hvolft er ég ekkert viss um að við höfum átt mikið meira inni að þessu sinni. Við lentum í vændræðum í vörninni í síðari hálfleik þegar leikmenn Flensburg sýndu sín gæði. Svo eru þeir klókir og gera fá mistök. Flensburgliðið kastar ekki frá sér fjögurra til fimm marka forskoti. Það er ástæða fyrir að liðið er jafn gott og raun ber vitni um,“ sagði Snorri Steinn ennfremur og bætti við að með örlítið meiri heppni hefði Valsliðið e.t.v. geta verið nær Flensburg þegar upp var staðið.
Stoltur af strákunum
„Maður er alltaf svekktur með að tapa leikjum. Maður vill alltaf meira. En ef maður er svekktur eftir fimm marka tap fyrir Flensburg þá segir það kannski eitthvað um kröfurnar sem við gerum til okkar. Ég er stoltur af strákunum. Það er ekkert hægt að krefjast meira af þeim en þeir sýndu í kvöld,“ sagði Snorri Steinn sem var eins og aðrir yfir sig ánægður með glæsilega umgjörð leiksins og frábær stemningu.
Vilja upplifa aftur
„Frammistaðan og dagurinn í heild sinni er eitthvað sem allir vilja upplifa aftur. Næst eru tveir leikir á útivelli hjá okkur í þessari keppni áður en sænsku meistararnir Ystad koma hingað um miðjan desember. Ég trúi ekki öðru en þeir sem mættu hingað í kvöld vilji aftur taka þátt í einhverju svipuðu,“ sagði Snorri Steinn.
Óvíst með Magnús
Meiðsli herja á tvo öfluga leikmenn Valsliðsins sem gátu fyrir vikið ekki beitt sér í 60 mínútur í leiknum í gær. Róbert Aron Hostert hefur verið frá í þrjár vikur eða svo og gat lítið látið ljós sitt skína í gær. Magnús Óli Magnússon tók meira þátt í leiknum sem gæti orðið til þess að hann verður minna með á næstunni. „Hvort Maggi verður með í næsta leik er önnur saga,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson spurður ástandið á þeim félögum.
Valur sækir Hörð heim á Ísafjörð á föstudagskvöldið í Olísdeild karla áður en farið verður til Aix í Frakklandi til leiks við PAUC á næsta þriðjudag.