- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Cupara barg stigi fyrir Serba

Vladimir Cupara markvörður serbenska landsliðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Markvörðurinn Vladimir Cupara var hetja Serba í kvöld þegar þeir náðu jafntefli við Frakka í Creteil í Frakklandi, 26:26, í undankeppni EM2022. Cupara, sem er einnig markvörður Veszprém, varði skot frá Timothy N’Guessan’s á síðustu sekúndum leiksins eftir að Serbar höfðu tapað boltanum í lokasókn sinni rétt fyrir leikslok. Serbar voru lengst af með frumkvæðið í leiknum og höfðu m.a. þriggja marka forskot í hálfleik, 15:12.

Leikmenn franska landsliðsins virtust lengi vera hálf áhugalausir í leiknum í kvöld. Þeir færðust þó í aukana í síðari hálfleik og voru nærri því að hirða bæði stigin þegar upp var staðið.


Stigið í kvöld færir Serba nokkuð nær sæti í lokakeppni EM eftir ár vegna þess að þeir unnu Frakka á heimavelli fyrr í vikunni og eru þar með komnir með þrjú stig eftir tvo leiki í riðli eitt í undankeppninni. Frakkar eru með eitt stig. Belgar og Grikkir hafa enn ekki hafið keppni í þessum riðli vegna þeirra erfiðleika sem kórónuveiran hefur valdið.


Línumaðurinn sterki, Ludovic Fabregas, var markahæstur hjá Frökkum með fimm mörk. Timothy N’Guessan og Hugo Descat skoruðu fjögur mörk hvor. Mijalo Marsenic var atkvæðamestur Serba með átta mörk. Petar Djordic var næstur með sjö mörk.


Pólska landsliðið tyllti sér á topp á fimmta riðils undankeppninnar í kvöld með öruggum sigri á landsliði Tyrklands, 35:24, á heimavelli. Pólverjar hafa fjögur stig eftir tvo sigurleiki á Tyrkjum á síðustu dögum. Slóvenar og Hollendingar, undir stjórn Eyjamannsins Erlings Richardssonar, hafa tvö stig. Landslið Slóvena og Hollendinga leiða saman hesta sína í Celje í Slóveníu á morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -