„Við lögðum á það áherslu að sýna ákveðni og standard strax í byrjun og að okkur væri alvara að vinna leikinn og fara á fullri ferð inn í undanúrslitin,“ sagði Lena Margrét Valdimarsdóttir leikmaður Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í dag eftir að Stjarnan vann KA/Þór með 11 marka mun, 33:22, í oddaleik liðanna um sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik í TM-höllinni.
Vildum bæta upp fyrir síðasta leik
„Við vorum mjög svekktar í rútunni á leiðinni heim eftir stórt tap fyrir KA/Þór á fimmtudaginn í leik í tvö. Við vildum bæta upp fyrir vonbrigðin í dag. Það kom ekki til greina að ljúka keppnistímabilinu á þeim nótum sem við lékum á Akureyri. Við þurftum að gera almennilega upp eftir þá viðureign. Mér finnst við hafa náð að svara vel fyrir okkur,“ sagði Lena Margrét sem skoraði fimm mörk en 11 leikmenn Stjörnunnar skoruðu mörk í leiknum.
Eftirvænting að mæta Val
Á laugardaginn hefst undanúrslitarimma Vals og Stjörnunnar. Lena Margrét er þokkalega vongóð um að framundan sé spennandi einvígi. Leikir Stjörnunnar og Vals voru jafnir í vetur.
„Við erum mjög spenntar fyrir leikjunum við Val. Við vorum nálægt því að vinna þær í vetur. Nú er markmiðið að stíga skrefinu lengra og vinna leiki og ná í fimm leikja einvígi. Vonandi vinnum við,“ sagði Lena Margrét Valdimarsdóttir leikmaður Stjörnunnar ákveðin.