Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska karlalandsins í handbolta var gestur Íþróttavikunnar sem er vikulegur þáttur á vegum Hringbrautar. Snorri fór yfir Evrópumótið sem framundan er í janúar og fór ekki í grafgötur með hvert markmiðið er fyrir mótið. Það væri að verða nógu ofarlega til að öðlast keppnisrétt í forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer í mars.
„Markmið liðsins er að komast á Ólympíuleikana í sumar. Það var slæmt fyrir okkur að HM fór eins og það fór því það var stór gluggi fyrir okkur til að komast þaðan og inn í forkeppni Ólympíuleikanna. Það kæmi mér rosalega á óvart ef að fimmta til áttunda sætið á EM væri ekki nóg til að ná sæti í forkeppni leikanna. Í okkar riðli [Serbía, Svartfjallaland og Ungverjaland – innskot blm.] eru þrjár þjóðir sem til dæmis eru ekki komnar á Ólympíuleikana og við þurfum bara helst að vinna okkar riðil.“
Styttist í hópinn
Snorri Steinn sagði að hann hafi velt vöngum síðustu daga og vikur yfir hvaða hóp leikmanna hann taki með sér til Þýskalands en íslenska landsliðið leikur í riðli sem leikinn verður í Ólympíuhöllinni í München. “Það styttist í að ég þarf að velja hópinn,” sagði Snorri Steinn.
„Það breyttist líka frá degi til dags hvernig maður hugsar hlutina, það kemur svo einhver ákveðin mynd upp og ég reyni svo að vinna samkvæmt henni. Þú þarft líka að vera vakandi yfir því að hlutirnir geta breyst hjá leikmönnum, bæði standið á þeim og meiðsli.
Spurður í þættinum út í hlutverk Arons Pálmarssonar sagði Snorri Steinn alveg sjá það fyrir sér að það geti verið stórt hér eftir sem hingað til.
Þýðir ekki að keyra Aron út í upphafi
„Það er samt auðvelt að rýna í einhverja tölfræði og sjá að við þurfum að passa upp á hann og nota hann rétt. Hans meiðslasaga er bara þannig að það þýðir ekki að keyra hann út í upphafi móta. Það hefur hinsvegar ekkert breyst að hann er góður í handbolta og sýndi það á æfingum og á móti Færeyjum að hann hefur mikið fram að færa til okkar. Hann er fyrirliði landsliðsins og er bæði lykilmaður og leiðtogi í þessu liði. Það er svo þjálfarateymisins að finna út úr hvernig hann nýtist best.
Við Aron erum á sömu blaðsíðu
Það pirrar engan meira en hann sjálfan að hafi ekki komist í gegnum síðustu stórmót vegna meiðsla. Aron er á sömu blaðsíðu og ég með þetta allt saman. Það breytist ekkert hjá honum sem er búinn að vera í þessu lengi og á mörgum stórum sviðum að hann langar bara að vera inná og spila sem mest.“
Halda aftur af Gísla
Spurður út í Gísla Þorgeir Kristjánsson sem er óðum að jafna sig af erfiðum axlarmeiðslum sagði Snorri Steinn að Gísli léti vel af sér um þessar mundir.
„Ég skynjaði það snemma hjá Gísla að hann var mjög einbeittur að ná þessu móti og hefur lagt mikið á sig til þess. Það liggur við að maður þurfi frekar að toga hann niður við samtölin sem ég hef átt við hann undanfarið.“
Ætlar ekki að stýra væntingum
EM 2023 verður ekkert frábrugnara en en önnur þegar kemur að væntingum þjóðarinnar um árangurinn og það skiptir litlu máli hvernig standið er á liðinu. Alltaf er gerð krafa um að vera í allra fremstu og röð og helst á verðlaunapalli áður en lagt er af stað. Snorri segist þekkja það vel verandi landsliðsmaður um langt árabil. Hann hyggst ekki bregða sér í hlutverk þess sem stýrir væntingum þjóðarinnar.
„Ég velti þessu ekki mikið fyrir mér. Mitt hlutverk verður ekki að vera með einhverja væntingarstjórnun, en það er samt sama í hvaða sporti þú ert í þú vilt hafa einhverjar væntingar en ég skynja það gegnum spjall mitt við strákana að þeir vilja meira núna en verið hefur,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik var gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar.