Þegar ÍR-ingurinn Baldur Fritz Bjarnason hampar markakóngskórónunni 2025 í efstu deild karla í handknattleik, eru liðin 66 ár síðan að ÍR-ingurinn Gunnlaugur Hjálmarsson setti upp kórónunina fyrstur manna á Íslandi. Baldur Fritz skoraði 211 mörk í 22 leikjum í Olísdeildinni 2024-2025, eða 9,6 mörk að jafnaði í leik. Hann skoraði 52 mörk úr vítaköstum og var heildarskotnýting hans 58,1%.
Sjá einnig: Baldur er fyrsti markakóngur ÍR í áratug – fetar í fótspor föður síns
Byrjaði 17 ára
Gunnlaugur, sem byrjaði að hrella markverði aðeins 17 ára 1956, skoraði 46 mörk í fimm leikjum í efstu deild 1959, en það ár var deildaskipting endurvakin, sex lið léku einfalda umferð í efstu deild; 5 leiki. Og þá var leiktími orðinn 2×30 mínútur.
Gunnlaugur skoraði 9,2 mörk að jafnaði í leik 1959. Annar ÍR-ingur, Hermann Samúelsson, varð þriðji markahæstur með 38 mörk.

Skoraði 10,5 mörk að meðaltali
Gunnlaugur, sem var þekktur sem „Labbi“ – var skotfastur og árásargjarn, var síðan aftur markakóngur 1961 er hann skoraði 42 mörk í fjórum leikjum. Lék ekki einn leik vegna meiðsla. Hann skoraði 10 mörk gegn FH, 6 mörk gegn Fram, 12 mörk gegn Val og 14 mörk gegn Aftureldingu. 10,5 mörk að jafnaði í leik.
Aftur 1964
„Labbi“ var síðan markakóngur 1962 í þriðja skipti, er hann skoraði 52 mörk í fimm leikjum, eða að jafnaði 10,4 mörk í leik. Ragnar Jónsson, FH, kom næstur á blaði með 45 mörk.
Árið 1963 var byrjað að leika tvöfalda umferð í efstu deild. Sex lið léku 10 leiki hvert. Ingólfur Óskarsson, Fram, setti þá markamet er hann skoraði 122 mörk. Gunnlaugur kom næstur á blaði með 109 mörk, eða 10,9 mörk að jafnaði í leik. Labbi varð fyrstur ÍR-inga til að brjóta 100 markamúrinn.

Villi vítaskytta fetaði í fótspor Labba
Næstur ÍR-inga að feta í fótspor „Labba“ var Vilhjálmur Sigurgeirsson, sem var þekktur undir viðurnefninu „Villi vítaskytta“. Hann var markakóngur 1969, er hann skoraði 60 mörk í tíu leikjum; að jafnaði 6,9 mörk í leik. Næstur á eftir honum kom Geir Hallsteinsson, FH, með 61 mark.

Hér á mynd má sjá Villa reginskyttu; öryggið uppmálað. Vilhjálmur Sigurgeirsson, ÍR, horfir í hornið, þar sem Rósmundur Jónsson, markvörður Víkingi, stígur hægri fótinn niður. Uppskriftin pottþétt; MARK! Þeir verja hann ekki þarna! hugsar Villi er hann kastar knettinum í gólfið, við hægri fótinn, sem er pass.
Okkur vantaði Villa
„Okkur vantaði einn Villa,“ sagði leikmaður Vals við mig, þegar ÍR kom í veg fyrir að Valur yrði Íslandsmeistari 1971, með óvæntum sigri, 24:15. Guðmundur Gunnarsson, markvörður ÍR, afrekaði þá það að verja sjö af 10 vítaköstum frá Valsmönnum.

Fyrir utan að vera mikil vítaskytta, sem brást sjaldan bogalistin, var Villi þekktur fyrir línusendingar sínar og gegnumbrot.
„Labbi“ var einnig mikil vítaskytta, fyrir utan að vera skotfastur og góður gegnumbrotsmaður.
Ungur ÍR-ingur árið 1980
Árið 1980 kom fram í sviðsljósið ungur ÍR-ingur, Bjarni Bessason. Hann skoraði 76 mörk í 14 leikjum og varð í öðru sæti; á eftir Kristjáni Arasyni, FH, sem skoraði 86 mörk.
Afrek Bjarna var mikið, þar sem hann tók aldrei vítakast, en aftur á móti skoraði Kristján 48 af mörkum sínum úr vítaköstum, eða 55,8% af mörkum sínum.