Undanúrslit úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik heldur áfram í kvöld þegar Valur og Afturelding mætast í fyrsta sinn á Hlíðarenda klukkan 19.30. Fyrr í dag eigast við Grótta og Selfoss í fyrsta sinn í úrslitum umspils Olísdeildar karla. Flautað verður til leiks í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi klukkan 15. Vinna þarf þrjá leiki til þess að öðlast sæti með 12 liða Olísdeildar karla á næstu leiktíð.
Fram vann deildarmeistara FH, 27:24, í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í gær. Valur og Afturelding fylgja í kjölfarið í kvöld en liðin höfnuðu í öðru og þriðja sæti Olísdeildar á dögunum.
Afturelding vann báðar viðureignirnar við Val í Olísdeidinni í vetur, 34:31, í N1-höllinni í september og 29:25 að Varmá í byrjun desember.
Í umspilinu á Grótta sæti að verja í Olísdeildinni eftir að hafa hafnað í næst neðsta sæti þegar upp var staðið. Grótta vann Hörð í undanúrslitum en Selfoss lagði Víkinga eftir tvo spennandi leiki í síðustu viku.
Leikir dagsins
Umspil Olísdeildar karla, úrslit, fyrsti leikur:
Hertzhöllin: Grótta – Selfoss, kl. 15.
Olísdeild karla, undanúrslit, fyrsti leikur:
N1-höllin: Valur – Afturelding, kl. 19.30.
Leikirnir verða sendir út á Handboltapasanum auk þess sem viðureign Vals og Afturldingar verður í opinni dagskrá í sjónvarpi Símans.
Stöðuuppfærsla verður hjá HBStatz.