Orri Freyr Þorkelsson átti stórleik í dag þegar Sporting Lissabon vann sér sæti í undanúrslitum portúgölsku bikarkeppninnar í handknattleik með naumum sigri á Ágúas Santas Milaneza, 30:29, á útivelli í hnífjöfnum leik. Orri Freyr skoraði 11 mörk og var markahæstur á leikvellinum.
Sporting varð bikarmeistari á síðasta ári og hefur þar með titil að verja.
Mosfellingurinn meiddur
Þorsteinn Leó Gunnarsson var ekki með Porto vegna meiðsla þegar liðið vann Marítimo Madeira Andebol, 31:27, í dag. Leikið var á Madeira. Um var að ræða annan leikinn í röð sem Þorsteinn Leó missir af vegna meiðsla. Leonel Fernandes var markahæstur hjá Porto með sjö mörk og Rui Silva og Antonio Llamazares skoruðu sex mörk hvor.
ABC Braga er einnig komið í undanúrslit en síðasti leikur átta liða úrslita fer fram í kvöld þegar Vitoria SC og Avanca eigast við.