- Auglýsing -
- Hvorki Aron Pálmarsson né Bjarki Már Elísson voru með One Veszprém í gær þegar liðið vann nýkrýnda bikarmeistara, Pick Szeged, 36:33 á heimavelli í 23. umferð ungversku 1. deildarinnar í handknattleik. Hugo Descat var markahæstur hjá Veszprém með níu mörk og Sergei Kosorotov var næstur með átta mörk en hann þótti leika sérlega vel.
- Janus Daði Smárason var að vanda með Pick Szeged í leiknum. Hann skoraði þrjú mörk. Mario Sostaric var markahæstur að vanda með sjö mörk.
- One Veszprém er lang efst í ungversku 1. deildinni með 44 stig eftir 23 leiki. Pick Szeged er næst á eftir með 36 stig og á fjóra leiki eftir. Veszprém á óleiknar þrjár viðureignir. Deildarmeistaratitillinn er því örugglega í höndum One Veszprém þetta árið.
- Deildarmeistarar Alpla Hard í Austurríki töpuðu í undanúrslitum austurrísku bikarkeppninnar í gær fyrir roomz JAGS Vöslau, 26:25. Tumi Steinn Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Alpla Hard. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard.
- Schwaz Handball vann BT Füchse, 38:32, í hinni viðureign undanúrslitanna í gær og leikur til úrslita við roomz JAGS Vöslau í dag.
- Dagur Gautason lék í 35 mínútur með Montpellier í gær í níu marka sigri liðsins á Chambéry, 35:26, í 24. umferð frönsku 1. deildarinnar. Dagur nýtti tækifærið vel og skoraði þrjú mörk úr þremur skotum. Montpellier situr í öðru sæti deildarinnar sem stendur með 41 stig, fjórum stigum á eftir PSG og stigi ofar en Nantes sem á leik til góða.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -