- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍR í undanúrslit í fyrsta sinn eftir framlengdan háspennuleik á Selfossi

Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR, er komin með lið sitt í undanúrslit í fyrsta sinn. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


ÍR tryggði sér sæti í undanúrslit Olísdeildar kvenna í kvöld með sigri á Selfossi, 28:27, í framlengdum háspennuleik í Sethöllinni á Selfossi. ÍR mætir Val í undanúrslitum og stendur til að fyrsti leikurinn fari fram á laugardaginn á Hlíðarenda. Þetta er í fyrsta sinn sem ÍR á lið í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildarinnar.

Sigurmark Önnu á síðustu sekúndu

Anna María Aðalsteinsdóttir skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins. Þurftu dómarar leiksins að skoða upptöku af markinu til þess að staðfesta að það væri gott og gilt, svo lítið var eftir af leiktímanum þegar boltinn söng í marknetinu eftir skot Önnu Maríu úr vinstra horni.

Hulda Dís Þrastardóttir hafði jafnað metin fyrir Selfoss úr vítakasti þegar 10 sekúndur voru eftir af leiktíma framlengingar og stefndi þar með í aðra framlengingu. ÍR-ingar nýttu hinsvegar sekúndurnar sem eftir voru til hins ítrasta.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi frá upphafi, loksins eftir að hann komst af stað eftir nærri 5 mínútna töf sökum þess að ólund hljóp í leikklukkuna þegar hún hafði gengið í rúmar þrjár mínútur. Selfoss var marki yfir í hálfleik, 11:10. ÍR-ingar byrjuðu síðari hálfleik afar vel með fjórum fyrstu mörkunum. Eftir það jafnaðist leikurinn þótt ÍR næði reyndar tvisvar tveggja marka forskoti, 20:18 og 21:19. Staðan var jöfn eftir 60 mínútur, 22:22.


Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 9/8, Katla María Magnúsdóttir 9, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 3, Hulda Hrönn Bragadóttir 2, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Eva Lind Tyrfingsdóttir 1, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1.
Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 10, 28,6% – Cornelia Linnea Hermansson 0.

Mörk ÍR: Sylvía Sigríður Jónsdóttir 12/4, Sara Dögg Hjaltadóttir 4, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Matthildur Lilja Jónsdóttir 4/1, Anna María Aðalsteinsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 11, 29,7% – Natalía Nótt Kaaber 0.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -