- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Einstefna í Úlfarsárdal

Elín Klara Þorkelsdóttir og félagar í Haukum fóru frábærlega af stað í undanúrslitum úrslitakeppninnar í dag. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -


Framarar biðu afhroð í fyrstu viðureign sinni við bikarmeistara Hauka í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í Lambhagahöllinni síðdegis. Segja má að lengst af hafi ekki staðið steinn yfir steini hjá Framliðinu sem var að leika sinn fyrsta kappleik í þrjár vikur. Haukar unnu með 12 marka mun, 30:18, eftr að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 17:10.

Næst mætast liðin á þriðjudagskvöld á Ásvöllum klukkan 18.


Skarð var svo sannarlega fyrir skildi hjá Fram að Berglind Þorsteinsdóttir gat ekki leikið með. Hún er ennþá frá keppni sökum ökklameiðsla sem hún varð fyrir í síðari landsleiknum við Ísrael fyrir um tveimur vikum. Fjarvera Berglindar kom sannarlega niður á varnarleik Fram sem var ekki sannfærandi í fyrri hálfleik þegar liðið missti öll tök á leikmönnum Hauka.

Haukar léku eins og þeir sem valdið hafa. Sóknarleikurinn var frábær með Elínu Klöru Þorkelsdóttur og Rut Arnfjörð Jónsdóttur í aðalhlutverkum. Þær sköpuðu 14 marktækifæri samanlagt. Þjálfarar Hauka gátu meira að segja leyft sér þann munað síðustu 10 mínúturnar að gefa þeim tækifæri til þess að kasta mæðinni og fylgjast með framvindu leiksins frá varamannabekknum.

Forskot Hauka var 10 mörk þegar stundarfjórðungur var til leiksloka, 23:13, og ljóst að undanúrslitarimman sem margir vonuðust til að yrði jöfn fór að minnsta kosti ekki af stað á þann hátt.


Mörk Fram: Lena Margrét Valdimarsdóttir 4/2, Alfa Brá Hagalín 4, Steinunn Björnsdóttir 2, Harpa María Friðgeirsdóttir 2, Íris Anna Gísladóttir 2, Elín Ása Bjarnadóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 12, 31,6% – Ethel Gyða Bjarnasen 2, 33,3%.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 9/2, Alexandra Líf Arnarsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 3, Birta Lind Jóhannsdóttir 3, Sara Odden 2, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 8, 38,1% – Elísa Helga Sigurðardóttir 4, 57,1% – Margrét Einarsdóttir 0.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Olís kvenna: Leikjadagskrá, úrslitakeppni 2025

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -