Lið íslensku landsliðskvennanna þriggja unnu leiki sína í úrslitakeppni þýsku 1. deildarinnar í handknattleik síðdegis í dag. Blomberg-Lippe með Andreu Jacobsen og Díönu Dögg Magnúsdóttir innanborðs er komið í undanúrslit eftir annan sigur á Oldenburg, 29:26 meðan Sandra Erlingsdóttir og liðsfélagar í TuS Metzingen unnu Borussia Dortmund á heimavelli í framlengdri viðureign, 36:32. Metzingen bíður oddaleikur í Dortmund að viku liðinni.
Andrea skoraði fimm mörk fyrir Blomberg-Lippe í Oldenborg. Hún gaf einnig fjórar stoðsendingar, fiskaði tvö vítaköst, vann andstæðinga af leikvelli í tvígang auk þess að vera föst fyrir í vörninni með þeim afleiðingum að tvisvar varð hún að sitja af sér tveggja mínútna refsingu.
Díana Dögg er óðum að sækja í sig veðrið eftir ristarbrot síðla í janúar. Hún skoraði þrjú mörk í leiknum, átti tvær stoðsendingar, skapaði eitt færi og átti þrjá stolna bolta í vörninni.
Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar
Eftir viku tekur Blomberg-Lippe þátt í úrslitahelgi Evrópudeildarinnar sem fer að vanda fram í Raiffeisen Sportpark í Graz í Austurríki. Leikið verður til undanúrslita á laugardaginn og til verðlauna daginn eftir. Blomberg-Lippe mætir Ikast í undanúrslitum.
Sigur í hörkuleik í Metzingen
Sandra Erlingsdóttir og liðsfélagar sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr með því að leggja sterkt lið Dortmund í framlengingu, 36:32, eftir að staðan var jöfn, 28:28, að loknum 60 mínútna leik.
Sandra skoraði fimm mörk úr fimm skotum. Hún var með stáltaugar á vítalínunni og skoraði úr öllum fjórum vítaköstum sínum. Sabrina Tröster skoraði sjö mörk fyrir Metz og Lisa Antl níu mörk fyrir Dortmund.

Dortmund-liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og var komið með fjögurra marka forskot eftir 20 mínútur, 13:9. Sandra og félagar og bitu í skjaldarrendur og minnkuðu forskotið í eitt mark fyrir hálfleik, 15:14.
Sandra gaf tóninn
Í síðari hálfleik náði Metzingen um skeið þriggja marka forskoti. Reynt lið Dormund kom til baka og komst yfir. Jana Scheib jafnaði metin fyrir Metzingen þegar níu sekúndur voru eftir að hefðbundnum leiktíma, 28:28. Sandra kom síðan Metzingen-liðinu á bragðið í framlengingunni. Hún gaf þar með tóninn fyrir framlenginguna sem Metzingen vann á sannfærandi hátt.