Ásdís Guðmundsson hefur samið við Fram og kemur til liðs við félagið fyrir næsta keppnistímabili eftir að hafa tekið sér frí frá handknattleik í vetur vegna MBA-náms í Barcelona. Ásdís útskrifast í sumar og mætir í kjölfarið galvösk í bláa búninginn í Lambhagahöllinni.
Ásdís er þrautreynd handknattleikskona. Hún var í margföldu meistaraliði KA/Þórs vorið 2021. Sumarið 2022 gekk Ásdís til liðs við Skara HF í Svíþjóð. Eftir dvölina þar lék Ásdís með ÍBV tímabilið 2023/2024 áður en flutti til Barcelona í haust til náms.
Ásdís hefur leikið 10 A-landsleiki auk fjölda leikja með yngri landsliðum.
Ásdís leikur aðallega á línunni en getur einnig brugðið sér í vinstra hornið auk þess að vera öflugur varnarmaður.
Breytingar hjá Fram
Einhver uppstokkun verður hjá Fram-liðinu eftir tímabilið. Lena Margrét Valdimarsdóttir flytur til Svíþjóðar auk þess sem orðrómur er uppi um að Steinunn Björnsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir ætli að draga saman seglin. Til viðbótar tekur Haraldur Þorvarðarson við þjálfun Fram-liðsins í sumar af Rakel Dögg Bragadóttur.