Norður Makedónía, Serbía, Austurríki, Pólland, Sviss, Ítalía, Úkraína og Rúmenía gripu átta síðustu farseðlana á Evrópumót karla í handknattleik þegar lokaumferðin fór fram. Fjórar síðastnefndu þjóðirnar flutu inn með besta árangur liðanna sem höfnuðu í þriðja sæti í riðlunum átta í undankeppninni.
Litáen sem fékk sex stig í fyrsta riðli situr eftir með sárt enni á kostnað Úkraínu sem var síðast með í lokakeppni EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu. Litáar steinlágu fyrir Norður Makedóníu í Skopje, 26:17. Minna tap hefði fleytt Litáum, undir stjórn Gintaras Savukynas, áfram.
Ítalía komst áfram þrátt fyrir tap í Serbíu. Ítalska landsliðið hefur ekki verið með í lokakeppni EM síðan 1998 þegar Ítalir voru gestgjafar mótsins.
Gamla stórveldið með á ný
Rúmenar eins og Georgíumenn taka þátt í EM í annað sinn í röð. Rúmenska landsliðið náði þriðja sæti í áttunda riðli eftir naumt tap fyrir Póllandi, 30:29, í Gorzów í Póllandi. Þegar rúmenska landsliðið var með á EM 2024 hafði landslið þessa forna evrópska stórveldis á sviði handknattleiks ekki verið í lokakeppni EM í 26 ár.
Þátttökuþjóðirnar 24 á EM karla 2026:
Danmörk, Noregur, Svíþjóð sem gestgjafar.
Frakklandi, Evrópumeistari 2024.
Slóvenía, Ísland, Ungverjaland, Svartfjallaland, Spánn, Króatía, Tékkland, Georgía, Færeyjar, Holland, Þýskaland, Portúgal.
Norður Makedónía, Serbía, Austurríki, Pólland, Sviss, Ítalía, Úkraína og Rúmenía
-Dregið verður í riðla fimmtudaginn 15. maí.
-EM fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 15. janúar til 1. febrúar 2026.
Margir önduðu léttar
Margir önduðu eflaust léttar þegar portúgalska liðinu tókst að merja ísraelska landsliðið, 34:33, í áttunda riðli en leikið var í Constanta í Rúmeníu þar sem ísraelska landsliðið hefur leikið tvo síðustu heimaleiki sína í undankeppninni. Vart mátti á milli liðanna sjá lengi vel en sigur hefði fært ísraelska liðinu EM-sæti.
Færeyingar unnu sinn riðil
Færeyingar unnu það einstaka afrek að vinna sinn riðil í undakeppninni. Þeir unnu stórsigur á Úkraínu í nýju þjóðarhöllinni, Við Tjarnir, 35:27. Liðlega 3.000 áhorfendur skemmtu sér konunglega á leiknum. Færeyska landsliðið var öruggt um EM farseðilinn fyrir leikinn.
Elias Ellefsen á Skipagøtu var markahæstur með níu mörk. Frændi hans Óli Mittún var næstur með sex mörk.