„Eftir það sem við höfum farið í gegnum síðustu daga finnst mér sterkt af okkur hálfu að vinna jafn sterkt lið og Haukar hafa á að skipa. Við vorum með forystuna mesta allan tímann en Haukar voru að narta í hælana á okkur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Val eftir sigur liðsins í fyrsta úrslitaleik Vals og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í N1-höllinni í kvöld, 30:28.
Hafði áhyggjur
Ágúst viðurkenndi að hafa haft ákveðnar áhyggjur af liði sínu fyrir leikinn í ljósi þess að aðeins þrír sólarhringar eru liðnir frá því að Valur varð Evrópubikarmeistari fyrst íslenskra liða eftir úrslitaleik á heimavelli.
Stoltur af stelpunum
„Ég fann það á sjálfum mér að það var það ekkert einfalt að gíra sig upp í þetta þótt verið sé að leika um Íslandsmeistaratitilinn. Við höfðum ekki mikinn tíma til þess að æfa. Hinsvegar gerðu stelpurnar þetta mjög vel í kvöld. Ég er mjög stoltur af þeim,“ sagði Ágúst Þór.
Ekki var hægt að láta hjá liða að heyra í Ágúst um þá ákvörðun að setja lítt reyndan dómara á úrslitaleikinn, að vísu í félagsskap með öðrum mjög reyndum.
Á ekki orð um þessa ákvörðun
„Ég á bara ekki orð um þessa ákvörðun. Á sama tíma situr reyndasta dómaraparið okkur, Anton og Jónas, upp í stúku og eru áhorfendur. Ég skil ekki hvað er að gerast hjá HSÍ. Það verður spennandi að sjá hverjir dæma úrslitaleik Vals og Fram á fimmtudaginn,“ sagði Ágúst og vísaði þar með til þriðju viðureignarinnar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla.
„Þetta er ekki sinni par sem dæmir venjulega saman. Dómaranefndin hlýtur að hafa mjög góð rök fyrir þessu,” sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
Lengra viðtal við Ágúst Þór er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.