Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, vann pólska landsliðið í morgun, 26:22, í þriðju umferð Opna Evrópumótsins í Gautaborg. Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12.
Þar með hefur íslenska liðið unnið tvo leiki af þremur í riðlakeppninni en þátttaka í mótinu er undirbúningur fyrir keppni á heimsmeistaramótinu sem hefst í Egyptalandi eftir rúman mánuð.
Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks og lítið var um varnir, jafnt var á með liðunum nánast allan fyrri hálfleikinn og þegar liðin gengu til búningsklefa var staðan 12:12.
Í upphafi síðari hálfleiks náðu strákarnir okkar fljótlega 3-4 marka forskoti, vörnin og markvarsla voru til fyrirmyndar og nokkur hraðaupphlaup skiluðu liðinu auðveldum mörkum. Að lokum uppskáru strákarnir góðan 4 marka sigur, 26:22.
Strákarnir leika við landslið Eistlands síðar í dag og við Litáen í fyrramálið í lokaumferð riðlakeppninnar.
Mörk Íslands: Ágúst Guðmundsson 7, Bessi Teitsson 5, Dagur Árni Heimisson 4, Andri Erlingsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 3, Garðar Ingi Sindrason 2, Daníel Montoro 2.
Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 5 skot – Jens Sigurðarson 2.