- Auglýsing -

Stórsigur á Eistlendingum – annað sæti riðilsins blasir við

- Auglýsing -


Íslenska landsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, á annað sætið A-riðils Opna Evrópumótsins næsta víst eftir stórsigur á Eistlendingum í síðari leik dagsins í dag, 30:17.

Liðið hefur unnið þrjá af fjórum leikjum sínum og er í öðru sæti fyrir lokaumferðina, hvernig sem viðureign Póllands og Egyptalands fer í kvöld. Spánverjar eru efstir með fullt hús stiga, fjóra sigra. Síðasti leikur íslenska liðsins í riðlakeppninni verður á móti Litáum í fyrramálið. Litáum hefur ekki gengið sem skildi á mótinu, hafa tapað fjórum viðureignum en engan unnið.


Aðeins var tveggja marka munur að loknum fyrri hálfleik í viðureigninni við Eistlendinga í dag, 14:12. Í síðari hálfleik tóku íslensku piltarnir öll völd á leikvellinum. Þeir léku feikisterka vörn og skoruðu auk þess nánast að vild, alls 30 mörk á 40 mínútum. Leiktíminn í mótinu er 2×20 mínútur.

Fyrstu mörk Ingvars Dags

Ingvar Dagur Gunnarsson skoraði þrjú mörk í leiknum í dag en það eru hans fyrstu mörk fyrir U19 ára landsliðið. Ingvar Dagur fótbrotnaði illa á æfingu landsliðsins skömmu fyrir Sparkassen Cup í desember og er að leika sína fyrstu leiki eftir það á Opna Evrópumótinu.


Mörk Íslands: Andri Erlingsson 7, Garðar Ingi Sindrason 4, Ingvar Dagur Gunnarsson 3, Marel Baldvinsson 3, Daníel Montoro 3, Ágúst Guðmundsson 2, Bessi Teitsson 2, Egill Jónsson 2, Haukur Guðmundsson 2, Dagur Leó Fannarsson 1.

Króatar efstir í B-riðli

Í B-riðli eru Króatar efstir með sex stig eftir þrjá leiki. Færeyingar og Svíar berjast um annað sætið og tækifæri á leik í undanúrslitum. Sænska liðið stendur betur að vígi ef liðin verða jöfn eftir eins marks sigur í innbyrðis leik í gær, 22:21.

Lokaumferð A- og B-riðla fara fram í fyrramálið.

Sigurlið A-riðils, að öllum líkindum Spánn, mætir liðinu sem hafnar í öðru sæti í B-riðils í undanúrslitum á fimmtudaginn. Liðið í öðru sæti A-riðils, vonandi Ísland, leikur þá á móti efsta liði B-riðils, sem að öllum líkindum verður Króatía.

Úrslit dagsins:
Litáen – Eistland 12:20.
Ísland – Pólland 26:22.
Eyptaland – Spánn 21:24.
Eistland – Ísland 17:30.
Spánn – Litáen 26:13.
Pólland – Egyptaland 22:26.

Holland – Finnland 20:15.
Svíþjóð – Færeyjar 22:21.
Króatía – Holland 22:16.
Finnland – Svíþjóð 12:19.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -