Handknattleikslið FC Barcelona stendur frammi fyrir mikilli endurskipulagningu fyrir tímabilið 2025/26. Með íþróttastjórann Enric Masip við stjórnvölinn hefur félagið hafið ferli breytinga. Tólf leikmenn síðasta keppnistímabils hafa róið á önnur mið og sjö nýir leikmenn hafa bæst við, þar á meðal landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson.
Ástæðan fyrir þessum miklu breytingum er sögð vera fjárhagsstaða félagsins og vilji að byggja meira á ungum leikmönnum úr eigin uppeldisstarfi, eftir því sem frá er sagt í Culé Mania.
Ekkert félag hefur oftar unnið Evrópukeppni meistaraliða, Meistaradeild Evrópu, en Barcelona, alls 12 sinnum. Einnig hefur Barcelona 34 sinnum unnið spænska meistaratitilinn í handknattleik karla.
Masip er arkitektinn
Masip, sem var lykilmaður í goðsagnakennda draumaliði Barcelona undir stjórn Valero Rivera seint á tíunda áratugnum, er arkitektinn á bak við uppstokkunina. Árið 2021 stóð hann á bak við uppsagnir bæði íþróttastjórans David Barrufet og þjálfarans Xavi Pascual. Nú, fjórum árum síðar, hafa hann og þjálfarinn Carlos Ortega samþykkt nýja stefnu sem á að tryggja framtíð félagsins.
Sjö leikmenn
Hvað varðar kaupin hefur Barcelona styrkt sig með leikmönnum eins og Viktori Gísla, línumanninum Ludovic Fàbregas, sem snýr aftur til félagsins eftir tveggja ára dvöl hjá One Veszprém. Þar að auki hafa Dani Fernández og Seif Elderaa verið fengnir til liðsins, auk þess sem þrír ungir leikmenn fá stærri hlutverk, þeir Ian Barrufet, Djordje Cikusa og Óscar Grau. Barrufet var í láni hjá MT Melsungen á síðasta tímabili og gerði það gott. Hann var á dögunum valinn efnilegasti handknattleiksmaður Evrópu af EHF.

Tíu kveðja
Aftur á móti kveðja 10 leikmenn félagið í sumar: Gonzalo Pérez de Vargas, Aitor Ariño, Hampus Wanne, Thiagus Petrus, Melvyn Richardson, Juan Palomino, Javi Rodríguez, Pol Valera, Jaime Gallego og Vincent Gérard. Sá síðastnefndi var á skammtímasamningi eftir de Vargas sleit krossband í febrúar.
Brottför Pérez de Vargas, Ariño og Wanne markar tímamót þar sem þeir hafa verið meðal mikilvægustu leikmanna á tímum Ortega. Brotthvarf Pol Valera vekur talsverða athygli. Hann var fenginn til Barcelona frá Granollers og vakti koma hans mikla athygli. Valera náði sér aldrei á strik með félaginu
Svipað og á síðasta tímabili
Fjárhagsáætlun Barcelona fyrir handbolta fyrir komandi tímabil er nærri 10 milljónum evra, jafnvirði nærri einum og hálfum milljarði. Er það svipuð upphæð og á síðustu leiktíð, 2024/2025.
Staðfest er að fleiri breytingar eiga sér stað eftir ár þegar tveir af mikilvægari leikmönnum liðsins, markvörðurinn Emil Nielsen og leikstjórnandinn Domen Makuc, hverfa á braut. Nielsen fer til ungverska liðsins Veszprém, en Makuc til þýska liðsins THW Kiel. Reiknað er með að spænski markvörðurinn Sergey Hernández komi í staðinn fyrir Nielsen og verði annar af markvörðum Barcelona frá og með 2026 ásamt Viktori Gísla.