- Auglýsing -

Viðsnúningur í rekstri – tap árið 2024 – blikur á lofti

- Auglýsing -


Tæplega 230 þúsund kr. tap var af rekstri Snasabrúnar ehf, útgefanda handbolti.is árið 2024. Þetta er þriðja árið af fjórum sem er tap á útgáfunni. Árið 2023 var ríflega 300 þúsund kr. afgangur. Er þess vegna um talsverðan viðsnúning að ræða.

Tekjur jukust árið 2024 um ríflega eina milljón frá árinu 2023 og námu 9,9 milljónum kr. Skýrist það af meiri auglýsingatekjum, ekki síst í einum mánuði ársins. Tekjur af sölu auglýsinga námu rúmlega 8,4 milljónum kr. í stað um 7,4 milljóna árið áður.

Framlög lesenda og velunnara drógust saman á síðasta ári og námu um hálfri annarri milljón kr.


Laun og launatengd gjöld námu liðlega 5,2 milljónum kr. og stóðu í stað á milli ára. Eitt stöðugildi var við útgáfuna árið 2024.

Önnur útgjöld önnur en laun hækkuðu um nærri 1,6 milljónir króna. Ástæða þess er m.a. sú að farið var í tvær ferðir með yngri landsliðum síðasta sumar auk þess sem meiri ferða- og dvalarkostnaður var vegna stórmóta A-landsliðanna 2024 en árið 2023.

Einnig hækkaði kostnaður við viðhald tölvukerfis talsvert á síðasta ári frá árinu á undan.

Langtímaskuldir voru engar í árslok 2024 og eiginfjárstaða slakari en í lok árs 2023.

Ekki sótt um stuðning

Snasabrún ehf sótti ekki um rekstrarstuðning vegna einkarekinna fjölmiðla árið 2024, ekki fremur en 2023, þar sem félagið uppfyllir ekki skilyrði laganna vegna of fárra launaðra starfsmanna.

Árið 2024 var fjórða heila starfsár Snasabrúnar ehf við rekstur handbolti.is sem opnaður var 3. september 2020.

Blikur á lofti fyrir árið 2025

Blikur eru á lofti í rekstrinum vegna yfirstandandi árs og framhald útgáfunnar er í óvissu. Auglýsingatekjur voru 20% lægri fyrstu 6 mánuði þessa árs í samanburði við síðasta ár. Margt bendir til þess að áfram verðu samdráttur í sölu auglýsinga á síðari hluta þessa árs, ekki síst síðustu fjóra mánuðina. Ofan á annað hefur velunnurum útgáfunnar því miður fækkað síðustu vikur og mánuði.

Brugðist hefur verið við með sparnaði auk þess sem frestað hefur verið breytingum og lagfæringum á vefsíðunni handbolti.is. Einnig hafa ferðir í vor, sumar og haust með landsliðum verið slegnar út af borðinu þótt það komi niður á aðsókninni.

Til viðbótar hefur nýrra leiða verið leitað síðustu vikur við sölu auglýsinga.

-Rétt er að ítreka að Snasabrún ehf gefur út handbolti.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -