„Slæmt og tap og svekkjandi hversu stórt það var í ljósi þess hvernig leikurinn þróaðist framan af,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í dag eftir 10 marka tap fyrir Noregi í krossspili um sæti 13 til 16 á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi. Ísland leikur þar með um 15. sæti mótsins af 24 þátttökuliðum á sunnudagsmorgun gegn Tyrklandi.
„Við vorum klaufar að vera ekki með jafna stöðu í hálfleik í stað þess að vera tveimur mörkum undir. Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru góðar, okkur tókst að jafna strax og áttum möguleika á að komast yfir, brjóta þar með ísinn. Því miður tókst það ekki. Við gerðum alltof mörg mistök í sóknarleik okkar sem varð til þess að norska liðið, sem er eitt besta hraðaupphlaupslið þessa aldursflokks, refsaði okkur með hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru,“ sagði Ágúst Þór vonsvikinn vegna þess á að köflum í leiknum átti íslenska liðið í fullu tré við það norska í uppstilltum leik.
Fjögurra marka munur
„Tapið var fullstórt. Það var ekki nema fjögurra marka munur þegar um 10 mínútur voru til leiksloka. Svo virtist sem leikmenn væru þá orðnir þreyttir og ekki alveg upp á sitt besta. Þá verður róðurinn þungur gegn liði eins og því norska,“ sagði Ágúst Þór.
Ljúkum mótinu með sæmd
Á sunnudaginn leikur íslenska liðið sinn síðasta leik á mótinu. Þangað til ætlar Ágúst Þór og Árni Stefán Guðjónsson að gefa leikmönnum aðeins lausan tauminn í dag með fjölskyldum sínum sem eru ytra. Leikmenn fá frí í dag en stefna á lyftingaæfingu á morgun.
„Við búum okkur vel undir lokaleikinn á sunnudaginn. Öll erum við staðráðin í að ljúka mótinu með sæmd. Stelpurnar hafa staðið sig vel mestan part mótsins og gert margt gott, við megum ekki gleyma því,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U19 ára landsliðs kvenna í handknattleik.
Tíu marka skellur gegn Noregi – 15. sætið á sunnudag
EM19-’25: Úrslit í leikjum í krossspili og um sæti