- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Meistaradeild kvenna: Tíu helstu félagaskiptin

Henny Elli Reistad kvaddi Vipers í Noregi í sumar og fekk til liðs við danska liðið Team Esbjerg. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Keppni í Meistaradeild kvenna hefst 11. september og hafa liðin verið á fullu í sínum undirbúningi fyrir nýtt tímabil undanfarna tvo mánuði og hafa margir leikmenn haft vistaskipti í sumar. Hér fyrir neðan rennum við yfir tíu stærstu félagaskiptin þar sem að lið eins og Györ, CSKA, Metz og CSM Búkaresti koma við sögu.

Crina Pintea (Til Györ frá CSM Búkaresti).
Þessi 31 árs leikmaður er góð á báðum helmingum vallarins en hún er þekkt fyrir harða framgöngu í vörninni. Þegar Pintea er í sínu besta ástandi þá er nánast ógerningur að stöðva hana í sókninni. Pintea er ekki ókunn staðháttum í Györ en hún vann Meistaradeildina með liðinu tímabilið 2018/19. Hún kemur aftur til þeirra eftir tveggja ára veru í heimalandi sínu með CSM Búkaresti.

Nera Pena (Til Vipers frá Esbjerg).
Þessi spænski miðjumaður hafði verið í átta ár í Ungverjalandi og spilað með liðunum FTC og Siofok áður en hún færði sig um set yfir til danska liðsins Esbjerg þegar komið var inn á síðasta tímabil þegar fjaðrafok varð í herbúðum Siofok. Hljóp Pena í skarðið fyrir Estvönu Polman meðan Hollendingurinn var frá keppni vegna slitins krossbands. Pena líkaði vel við handboltann í Skandinavíu og ákvað að halda sig þar en færði um set yfir til Noregs.

Vipers, sem er ríkjandi meistari, þurfti að styrkja sóknarleikinn hjá sér frá síðustu leiktíð. Pena, sem er þekkt fyrir að hafa gott auga fyrir spili, fellur mjög vel í hópinn hjá norska liðinu. Reynsla hennar á einnig án efa eftir að hjálpa Vipers. Pena hefur skorað 408 mörk í Meistaradeildinni.

Eduarda Amorim Taleska (Til Rostov-Don frá Györ).
Brasilíska stórskyttan var í 12 ár í herbúðum ungverska liðsins Györ þar sem hún var í fimm ár í sigurliði Meistaradeildarinnar. Amorim yfirgefur ungverska liðið sem hetja en tekur upp þráðinn hjá rússneska liðinu Rostov-Don. Amorim hefur verið í lykilhlutverki í góðum liðsanda hjá Györ og er leikmaður sem nýtur virðingar og býr yfir reynslu. Eitthvað sem getur verið dýrmætt fyrir Rostov.

Majda Mehmedovic kvaddi heimalandið og samdi við nýliða Meistaradeildarinnar. Mynd/EPA

Majda Mehmedovic (Til Kastamonu Belediyesi frá Buducnost).
Mehmedovic er einn af bestu vinstri hornamönnum í kvennaboltanum í dag. Hún mun auka reynsluna hjá hjá nýliðum Meistarardeildarinnar frá Tyrklandi. Hún endurnýjar kynni sín við Jovanku Radicevic en þær tvær mynda án efa eitt besta hornaparið í kvennahandboltanum.

Linn Blohm (Til Györ frá Minaur Baia Mare).
Blohm ákvað að taka skref niðurá við fyrir síðustu leiktíð og ganga til liðs við rúmenska liðið Baia Mare sem tók ekki þátt í Evrópukeppnum. Hún er nú tilbúin að koma aftur í keppni þeirra bestu. Blohm mun myndar eitt besta línumanna tríó hjá Györ ásamt þeim Crina Pintea og Kari Brattset Dale. Blohm er góður varnarmaður og er einnig öflug í sókn. Hún er án efa leikmaðurinn sem þurfti til að gera atlögu að titlinum sem rann Györ úr greipum á síðustu leiktíð.

Tess Wester landsliðsmarkvörður Hollands flutti frá Danmörku til Rúmeníu í sumar. Mynd/EPA

Tess Wester (Til CSM Búkaresti frá Odense).
Þar sem Jelena Grubisic markvörður rúmenska liðsins tilkynnti í vor að hún leggði skóna á hilluna í sumar voru forráðamenn rúmenska liðsins fljótir að fylla þá stöðu með því að semja við hollenska landsliðsmarkvörðinn Tess Wester. Grubisic ákvað svo að hætta við að hætta og mynda þær því nú sterkt markvarðarpar. Hjá Búkaresti hittir Tess Wester tvær hollenskar landsliðskonur, vinstri hornamanninn Martine Smeets og línumanninn Yvette Broch.

Jovanka Radicevic (Til Kastamonu Belediyesi frá Buducnost).
Eftir að hafa spilað lengst af með uppeldisfélagi sínu Buducnost ákvað Radicevic að söðla um og ganga til liðs við nýliðana í Meistaradeild kvenna. Hún verður ekki eini Svartfellingurinn í tyrkneska liðinu því fyrir eru þær Majda Mehmedovic, Marina Rajcic og Milena Raicevic, en Radivevic verður án efa leiðtogi liðsins. Radicevic er ein af þeim allra bestu í sögu Meistaradeildarinnar en hún hefur skorað 882 mörk á þeim 16 tímabilum sem hún hefur spilað í Meistaradeildinni.

Bruna de Paula (Til Metz frá Nantes).
Þessi 173cm hávaxna brasilíska skytta hefur allt sem góðan leikmann prýðir, hraða, sköpunargleði og góða skottækni. De Paula var valin mikilvægasti leikmaðurinn í úrslitahelgi í Evrópudeildarinnar í vor þegar hún hjálpaði Nantes að vinna sinn fyrsta titil. De Paula lék frábærlega í úrslitaleiknum. Hún var einnig mjög góð með brasilíska landsliðinu á Ólympíuleiknum í Tokýó í sumar og var m.a. næst markahæst í liðinu með 25 mörk í fimm leikjum. Þá er er mikill kostur fyrir Metz að Paula þarf ekki að aðlagast frönskum handbolta en hún hefur spilað í landinu frá árinu 2016/17.

Henny Reistad (Til Esbjerg frá Vipers).
Þessi 22 ára vinstri skytta er ein af efnilegustu leikmönnum í kvennahandboltanum í dag Reistad kórónaði frammistöðu sína á síðustu leiktið með frábærum leikjum í Final4 úrslitahelgi Meistaradeildarinnar, þegar hún skoraði 22 mörk og lagði þar með sitt lóð á vogarskálarnar til að Vipers ynni keppnina í fyrsta sinn.
Félagaskiptin til Esbjerg voru tilkynnt fyrir Final4 úrslitahelgina. Var það klókur leikur hjá danska liðinu að klófesta þessa frábæru handknattleikskonu sem hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í tvö ár í Meistaradeildinni og skorað 70 mörk.

Ana Gros (Til CSKA frá Brest).
Það var álitaefni hvort að CSKA hefði nógu sterka sóknarleikmenn en það er ljóst að með því að semja við Gros fær liðið aukna breidd og þekktan markaskorara í Meistaradeild kvenna. Slóvenska hægri skyttan var markahæst í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð með 135 mörk en hún hefur aldrei skorað færri en 73 mörk á þeim sex tímabilum sem hún hefur leikið í Meistaradeildinni. Það er ljóst að Gros er leikmaður sem rússneska liðinu sárvantaði vegna þess að liðinu hefur ekki alltaf gengið nægilega vel að skora í leikjum sínum. Þriðja mark Gros í Meistaradeildinni á nýju keppnistímabili verður hennar 700. mark í keppninni frá upphafi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -