- Auglýsing -
- Svíinn Henrik Signell hefur verið ráðinn þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Larvik HK. Signell skrifaði undir þriggja ára samning við liðið. Samhliða þjálfuninni verður Signell áfram þjálfari hollenska kvennalandsliðsins. Hann segir störfin falla vel hvort að öðru enda ekki óalgengt að þjálfari starfi á tvennum vígstöðvum.
- Signell er 48 ára gamall og þrautreyndir þjálfari. Hann var um árabil með kvennalið IK Sävehof í heimalandi sínu. Síðar þjálfaði hann sænska og landsliðið og landslið Suður Kóreu. Hann hætti í Suður Kóreu í fyrra eftir að þess var krafist að hann væri með þrjár æfingar á dag fyrir landsliðið. Signell sagði það útilokað. Þegar forráðamenn handknattleikssambands Suður Kóreu sátu við sinn keip axlaði Svíinn sín skinn og réði sig til hollenska handknattleikssambandsins þar sem ekki er krafist jafn mikillar æfingahörku.
- Þýska handknattleiksliðið HC Erlangen, sem landsliðsmennirnir Andri Már Rúnarsson og Viggó Kristjánsson leika með, hefur hætt við fyrirhugaðan æfingaleik við HC Kriens-Luzern sem fram átti að fara í dag í Sviss. Ástæða þess að hætt var við ferðina til Sviss eru veikindi og meiðsli í leikmannahópi HC Erlangen, segir í tilkynningu félagsins í gær.
- Þýska landsliðskonan Xenia Smits hefur yfirgefið fjárvana HB Ludwigsburg og samið við franska meistaraliðið Metz. Aðeins er beðið eftir samþykki frönsku leyfisnefndarinnar á félagaskiptin. Metz hefur gert grein fyrir fjármögnun á komu Smits til félagsins. Smits lék með Metz frá 2015 til 2020.
- Danska handknattleikskonan Christina Pedersen getur ekki ennþá æft með liðsfélögum sínum í danska liðinu Viborg. Félagið framlengdi sumarleyfi hennar á síðasta föstudag um viku. Nærri þrjár vikur eru síðan Pedersen var send í leyfi vegna þess að samherjar hennar neituðu að æfa með henni. Forráðamenn Viborg eru á milli steins og sleggju í málinu eins og handbolti.is hefur áður sagt frá í tvígang.
- Pedersen var prímusmótor Viborg á síðustu leiktíð og markahæsti leikmaður liðsins. Hún framlengdi samning sinn við félagið í vor til tveggja ára.
- Sumarleyfi Pedersen rennur út um næstu helgi og vonast er til þá hafi lausn fengist á hnútnum sem er á milli leikmanna Viborg og hennar.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -