Bergvin Snær Alexandersson, ungur og uppalinn markmaður Aftureldingar sýndi frábær tilþrif í gær þegar Afturelding lagði Gróttu í æfingaleik í Hertzhöllinni, 31:20. Hann gerði sér lítið fyrir og varði vítakast og náði auk þess að verja skot eftir að boltinn hrökk til vítaskyttu Gróttu á ný eins og sést á myndskeiði Úlfars Haraldssonar sem handbolti.is fékk sent.
Sannarlega vasklega gert hjá þessum unga markverði.
Er að ganga upp úr 3. flokki
Bergvin Snær, sem var að ganga upp úr 3. flokki, verður markvörður U-liðs Aftureldingar í Grill 66-deildinni í vetur.
Bergvin kom inn á leikvöllinn þegar á leið viðureignina í Hertzhöllinni í gær í stað Einars Baldvins Baldvinssonar. Bergvin Snær varði 5 skot og þar á meðal vítakastið og frákastið, eins og áður segir.
Ekki á flæðiskeri stödd
Ljóst er að Afturelding er ekki flæðiskeri stödd með markverði því auk Bergvins Snæs og Einars Baldvins er Sigurjón Bragi Atlason, annar markvörður 19 ára landsliðsins sem nú tekur þátt í HM, uppalinn Aftureldingarmaður.