- Auglýsing -
- Katla María Magnúsdóttir skoraði tvö mörk, annað úr vítakasti, í fyrsta leik sínum með Holstebro Håndbold í gær þegar liðið vann Ejstrup/Hærvejen, 35:18, í næst efstu deild danska handknattleiksins. Katla María gekk til liðs við Holstebro Håndbold í sumar frá Selfossi.
- Unnusti Kötlu Maríu, Jóhannes Berg Andrason, skoraði eitt mark fyrir TTH Holstebro þegar liðið tapaði fyrir GOG, 36:32, í annarri umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í fyrrakvöld. Arnór Atlason er þjálfari TTH Holstebro. Liðið hefur unnið annan af tveimur leikjum sínum til þessa. Færeyingurinn Óli Mittún skoraði sex mörk fyrir GOG og gaf fjórar stoðsendingar.
- Sveinn Jóhannsson kom ekkert við sögu hjá Chambéry þegar liðið gerði jafntefli við Nantes, 34:34, á heimavelli í fyrstu umferð frönsku 1. deildarinnar í gær.
- Berta Rut Harðardóttir var í leikmannahópi Kristianstad í gær þegar liðið vann Kungälvs, 31:30, í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar. Kristianstad vann einnig fyrri viðureignina og er þar með komið í átta liða úrslit keppninnar.
- Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði ekki mark fyrir karlalið Kristianstad í 12 marka sigri á Helsingborg, 40:28, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar á heimavelli í gær. Síðari leikurinn fer fram í Helsingjaborg næsta föstudag.
- Auglýsing -