- Auglýsing -
- HC Oppenweiler/Backnang, liðið sem Tjörvi Týr Gíslason leikur með, krækti í sitt fyrsta stig í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld með jafntefli á heimavelli við Coburg, 23:23. Tjörvi Týr skoraði ekki mark en var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
- Franska meistaraliðið PSG hefur í skyndi keypt norska handknattleiksmanninn Sindre Heldal frá Elverum. Heldal á að hlaupa í skarðið fyrir Emil Mellegård sem sleit krossband í leik PSG og Montpellier í meistarakeppninni í Frakklandi á dögunum.
- Kúbanskættaði handknattleiksmaðurinn Reinier Taboada er orðinn gjaldgengur með hollenska landsliðinu í handknattleik eftir nokkra bið. Hollendingar gerðu sér vonir um að Taboada yrði gjaldgengur með landsliðinu fyrir HM í upphafi þessa árs en um tálsýn var að ræða enda Taboada þá ekki búinn að vera handhafi hollensks vegabréfs nógu lengi. Hann er hægri skytta og mun vafalaust styrkja hollenska landsliðið.
- Danski landsliðsmaðurinn Lasse Andersson er sagður yfirgefa Füchse Berlin næsta sumar og gerast liðsmaður ungversku meistaranna One Veszprém.
- Kurr er sagður vera í þýska landsliðsmanninum Luca Witzke sem kom til Flensburg í sumar frá Leipzig. Witzke lék aðeins í átta mínútur í tveimur fyrstu leikjum Flensburg. Hann fékk aðeins meira tækifæri í gærkvöld gegn GWD Minden og skoraði m.a. fimm mörk og gaf tvær stoðsendingar í 40:27, sigri. Hvort það er upphafið að meiru hjá Witzke verður að koma í ljós. Þýskir fjölmiðlar segja hann vilja komast frá Flensborgarliðinu.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -