Kolstad vann nauman sigur í heimsókn til Kristiansand, 33:32, í fjórðu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í gær. Kolstad sem hefur fjóra Íslendinga innan sinna raða er þar með áfram eina liðið sem hefur unnið allar viðureignir sína til þessa. Deilir Kolstad efsta sæti deildarinnar með Elverum sem leikið hefur einni viðureign fleira, en tapað einni þeirra.
Magnus Gullerud skoraði sigurmark Kolstad þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Eftir það kepptust leikmenn beggja liða við að bæta við mörkum en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Ellefu mörk
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk fyrir Kolstad í sigurleiknum í Kristiansand. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði þrjú mörk og Arnór Snær Óskarsson tvö. Benedikt Gunnar átti sex stoðsendingar og Arnór Snær eina.
Sigurjón Guðmundsson var um skeið í marki Kolstad í leiknum en er ekki skráður fyrir vörðu skoti. Hann átti eina stoðsendingu.
Var ekki með
Tryggvi Þórisson var ekki í leikmannahópi Elverum þegar liðið vann Halden, 30:28. Þetta er a.m.k. þriðji leikurinn sem Tryggvi missir af í röð.
Dagur Gautason skoraði fjögur mörk fyrir ØIF Arendal í eins marks sigri á Fjellhammer, 26:25, á útivelli í gær. Dagur skoraði síðasta mark ØIF Arendal og kom liðinu tveimur mörkum yfir, 26:24, þegar tvær mínútur voru til leiksloka.
Skellur í Sandefjord
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var ekki í leikmannahópi Sandefjord þegar liðið tapaði með 12 marka mun á heimavelli fyrir Bergen Håndbold, 44:32. Phil Döhler fyrrverandi markvörður FH, sem nú stendur á milli stanganna hjá Sandefjord-liðinu, náði sér ekki á strik. Hann varði aðeins þrjú skot, 12%. Döhler var heldur ekki öfundsverður af hlutverki sínu fyrir framan afleita vörn.
Staðan í norsku úrvalsdeildinni í karlaflokki: