- Auglýsing -
- Handknattleiksmaðurinn Júlíus Flosason hefur verið lánaður til Fjölnis frá HK út þetta keppnistímabil. Júlíus lék sinn fyrsta leik með Fjölni í gærkvöld. Koma hans hafði góð áhrif því Fjölnisliðið vann sinn fyrsta leik í Grill 66-deildinni, 31:29, gegn Hvíta riddaranum.
- Eftir tap í heimsókn til Västerås á fimmtudagskvöld þá risu Berta Rut Harðardóttir og samherjar í Kristianstad HK upp á afturlappirnar í dag og unnu öruggan sigur á Kungälvs HK, 38:29, á heimavelli. Berta Rut skoraði tvö af mörkum Kristianstad HK sem er um miðja deild með þrjú stig að loknum þremur leikjum.
- Katla María Magnúsdóttir skoraði sex mörk og var næst markahæst hjá Holstebro þegar liðið vann BK Ydun, 32:28, í fimmtu umferð næst efstu deildar danska handknattleiksins í dag. Katla skoraði helming marka sinna úr vítaköstum. Holstebro er efst í deildinni með 10 stig eftir fimm leiki.
- Jón Ísak Halldórsson skoraði eitt mark þegar lið hans Lemvig vann baráttusigur á KIF Kolding, 32:31, á heimavelli Kolding í dag. Lemvig er um miðja deild með fimm stig að loknum sex leikjum í næst efstu deild danska handknattleiksins. Jón Ísak kom Lemvig yfir, 30:29, með marki sínu. Hann kom til Lemvig í sumar eftir að hafa verið undir handleiðslu Arnórs Atlasonar hjá TTH Holstebro.
- Dagur Sverrir Kristjánsson skoraði tvisvar þegar lið hans, Vinslövs HK, tapaði með 16 marka mun fyrir Skånela IF, 39:23, í þriðju umferð Allsvenskan, næst efstu deildar, sænska handknattleiksins í dag. Vinslövs HK hefur farið hægt af stað í deildinni og tapaði þremur fyrstu leikjum sínum og rekur lestina.